Klínísk starfsemi Landspítala verður frá 1. janúar 2022 fjármögnuð í samræmi við umfang veittrar þjónustu þar sem byggt er á DRG, alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma. Landspítali og Sjúkratryggingar Íslands undirrituðu samning þess efnis 23. september 2021.
Undirbúningur að gerð þessa fjármögnunarsamningsins hófst fyrir rúmum 15 árum en þjónustutengd fjármögnum sjúkrahúsa er vel þekkt víða erlendis. Norðurlandaþjóðirnar nota svonefnt NordDRG kerfi og hefur Landspítali stuðst við það í kostnaðargreiningu í mörg ár.
Með samningnum verður fjármögnun Landspítala að stórum hluta þjónustutengd, þ.e.a.s. klíníski hluti starfseminnar, en verkefni sem t.d. tengjast hlutverki hans á sviði kennslu og vísinda, stofnkostnaðar og meiri háttar viðhalds verða fjármögnuð með föstum fjárveitingum eins og áður.
Samkvæmt tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins eru markmið samningsins og ávinningur af honum eftirfarandi:
- Fjárveitingar taka mið af raunverulegu umfangi þjónustu og raunkostnaði
- Aukið gegnsæi við úthlutun fjármagns
- Auðveldara að gera áætlanir og setja markmið um magn þjónustu í samræmi við þörf þeirra sem á henni þurfa að halda
- Stuðlar að aukinni skilvirkni ásamt betra eftirlit með gæðum, umfangi og hagkvæmni þjónustunnar
Sjá nánar frétt á vef Stjórnarráðs Íslands