Kæra samstarfsfólk!
Undanfarið hefur verið talsverð umræða um fjármögnun Landspítala. Nýlega birti til að mynda Gylfi Zöega, prófessor í hagfræði, grein í Vísbendingu þar sem hann m.a. kemst að þeirri niðurstöðu að fjárframlög til spítalans séu í raun aðeins hluti af raunþörf. Framlögin, sem sannarlega hafa aukist, hafa að mestu farið í kjarasamninga sem ríkið hefur gert við stéttarfélög og þar af leiðir að spítalinn hefur ekki getað aukið þjónustu sína í samhengi við þörfina. Engu að síður hefur spítalanum tekist að auka mjög sína starfsemi með útsjónarsemi og þeirri umbótavegferð (lean management) sem staðið hefur undanfarin ár. Dæmi um það er hvernig skurðaðgerðum hefur fjölgað á spítalanum um 45% og ég fjallaði um í síðasta pistli.
Eftir efnahagshrun haustið 2008 varð mikil afturför í fjármögnun spítalans sem náði lágmarki árið 2012. Frá árinu 2012 hafa fjárveitingar síðan vaxið á nýjan leik en vegna þeirrar miklu dýfu sem efnahagshrun hafði í för með sér eru fjárveitingar til rekstrar nú aðeins 0,7% hærri en þær voru árið 2008, rétt fyrir efnahagshrun. Fjárveiting ársins 2019 var þannig á pari við fjárveitingu ársins 2008
Það er því ljóst að talsvert verk er framundan við að fjármagna með fullnægjandi hætti brýna uppbyggingu heilbrigðiskerfisins enda verður framtíðinni ekki frestað.
Talandi um uppbyggingu. Dagurinn í dag var sérstaklega ánægjulegur enda var tekin skóflustunga að næststærstu framkvæmd Hringbrautarverkefnisins, rannsóknarhúsinu. Rannsóknarhúsið og rannsóknarstarfsemi Landspítala er og verður áfram einn af burðarásum í fjölþættri starfsemi okkar. Í húsinu munu fjölmargar rannsóknarstofur spítalans, sem nú eru dreifðar um borgina, fá samastað. Starfsemi hússins mun taka mið af því besta sem þekkist í hönnun rannsóknarþjónustu og leiða til stórstígra framfara í þjónustu við sjúklinga. Framkvæmdir við meðferðarkjarnann ganga samkvæmt áætlun og þar mun bráðastarfsemi okkar loks sameinast. Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir allri núverandi starfsemi Landspítala í þeirri byggingu, fer því fjarri að ekki sé verið að huga að uppbyggingu annarrar mikilvægrar starfsemi spítalans. Þar má nefna geðþjónustuna sem nú býr við úreltan húsakost en þarfagreining sem fara mun fram á næstu mánuðum og árum mun leggja línur um það hvernig best má mæta nútímaþörfum þar og víðar í spítalaþjónustunni.
Mikið hefur mætt á gjörgæsludeildum spítalans og hafa fáir farið varhluta af því. Gjörgæsludeildir okkar eru tvær, ein í Fossvogi og önnur við Hringbraut. Við höfum nú opin samtals 14 gjörgæslurými og veitir ekki af því. Gjörgæslulega sjúklings krefst gríðarlegs mannafla og sem dæmi má nefna að til að reka eitt gjörgæslurými þarf 4,5 stöðugildi hjúkrunarfræðinga. Við stefnum á opnun 15. rýmisins um leið og þjálfun starfsfólks er lokið en slík þjálfun tekur langan tíma. Samhliða vinnum við nú að opnun hágæslurúma en þau geta létt álagi af gjörgæslum við meðferð mikið veikra sjúklinga sem þarfnast náins eftirlits sem almennar legudeildir eru ekki undirbúnar fyrir. Undirbúningur að þessu hefur staðið lengi yfir og eiga stjórnendur þessara eininga hrós skilið fyrir þrautseigju í málinu.
Góða helgi!
Páll Matthíasson