Landspítali er á hættustigi, sem er annað af þremur viðbragðsstigum Landspítala samkvæmt viðbragðsáætlun spítalans. Ástæðan er faraldur COVID-19.
Skilgreining hættustigs samkvæmt viðbragðsáætlun Landspítala er eftirfarandi:
Orðinn atburður sem kallar á að starfað sé eftir viðbragðsáætlunum. Fjöldi þolenda af þeirri stærðargráðu að aukið álag skapast á ýmsar deildir (gulur litur í gátlistum).
Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega.
Staðan kl. 12: Tíu sjúklingar eru inniliggjandi á Landspítala með COVID-19, átta á legudeildum og tveir á gjörgæslu. Ein innlögn var í gær vegna annars en COVID. Engar útskriftir voru síðastliðinn sólarhring. 1.205 eru í eftirliti á COVID göngudeild, þar af 160 börn. Enginn er á rauðu en 17 einstaklingar flokkast gulir. 19 starfsmenn eru í einangrun, 24 í sóttkví A og 91 starfsmaður er í vinnusóttkví.
Sérstakar tilkynningar
Í gær tóku gildi nýjar reglur um styttingu einangrunar vegna COVID hjá einstaklingum sem uppfylla tiltekin skilmerki:
Almennt hraustir, bólusettir einstaklingar með engin eða væg einkenni á meðan einangrun stendur geta útskrifast úr einangrun ef komnir eru a.m.k. 10 dagar frá greiningu/jákvæðu sýni og þeir hafa verið án einkenna í a.m.k. 3 daga. Fyrirmæli um sérstaka varúð gilda í 2 vikur eftir útskrift úr einangrun.
Í kjölfar þessarar tilkynningar höfðu mjög margir samband og óskuðu eftir að skoðað yrði hvort þeir féllu undir þessi skilmerki. Fólk er vinsamlegast beðið um að bíða rólegt eftir símtali því starfsfólk COVID göngudeildar verður að fá svigrúm til að standa faglega að útskriftum.
Þá er ítrekað að fólk þarf að gæta sín sérstaklega í umgengni við viðkvæma hópa í tvær vikur eftir að einangrun lýkur.