Landspítali er á hættustigi.
Staðan kl. 12: Þrír sjúklingar eru inniliggjandi á legudeildum með COVID, 608 eru í eftirliti á COVID göngudeild, þar af 62 börn. 13 starfsmenn eru í einangrun, 27 í sóttkví A og í vinnusóttkví eru 244 starfsmenn (mun fjölga nokkuð í dag).
Sérstakar tilkynningar
1. Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum. Rakning er langt komin, enginn grunur er um smit út frá þessum smitum ennþá en nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga fer í sóttkví, annars vegar sóttkví A og hins vegar vinnusóttkví. Einnig er skimað í kringum þessi smit að venju.
2. Þegar starfsmenn eru skimaðir eða tekin einkennasýni á starfsstöðvum þeirra er mjög mikilvægt að beiðnirnar séu rétt útfylltar – merkja þarf við Heilsufarsskoðun starfsmanna og ábyrgur læknir er Már Kristjánsson.
3. Mikilvægt að árétta að sjúklingar sem leggjast inn/fara í aðgerðir eða önnur inngrip og eru nýkomnir yfir landamæri (bólusettir innan 5 daga og óbólusettir innan 7 daga) eiga að fara í sóttkví. Taka á sýni við innlögn og á 5. eða 7. degi eftir atvikum. Neikvæð niðurstaða losar sjúkling úr sóttkví. Þá er einnig ástæða til minna á mikilvægi þess að taka sýni fyrir fjölónæmum bakteríum hjá þeim sem hafa verið á sjúkrahúsi erlendis og einangra í samræmi við verklag þar um.
4. Áfram er verið að skoða breytt verklag í eldhúsi og matsölum varðandi matarskömmtun og matarsendingar á deildir. Starfsfólk er beðið um að gæta ítrustu sóttvarna þ.m.t. fjarlægðamarka á þeim stöðum þar sem neysluhlé fara fram (matsalir og kaffistofur).