Vísindatímaritið The Lancet Gastroenterology & Hepatology birti 22. júní 2021 grein eftir hóp vísindamanna á Landspítala, Sjúkrahúsinu Vogi og Embætti landlæknis um góðan árangur meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C sem staðið hefur síðan í ársbyrjun 2016.
Í greininni í The Lancet Gastroenterology & Hepatologyog og sérstakri umsögn um hana í tímaritinu kemur fram að markmiðum um þjónustuþekjun1 í átt að útrýmingu lifrarbólgu C sem meiri háttar lýðheilsuvandamáls hafi verið náð á Íslandi á fyrstu þremur starfsárum átaksins. Af 865 greindum tilfellum lifrarbólgu C á Íslandi hafi 824 (95,3%) fengið þjónustu í átakinu og 717 (90,2%) hlotið lækningu á þeim tíma. Er talað um þennan árangur sem mikilvægan áfanga í átt að útrýmingu lifrarbólgu C á heimsvísu.
Í greininni er því lýst hvernig átakið var skipulagt og þróað með þverfaglegu samstarfi þriggja sérgreina (lifrarlækningar, smitsjúkdómalækningar og fíknlækningar). Meginsmitleið lifrarbólgu C á Íslandi er samnýting áhalda hjá þeim sem neyta fíkniefna í æð og rekja má meirihluta smita (nýrra og eldri smita) til slíkrar notkunar.
Hin þverfaglega, skaðaminnkandi nálgun sem beitt var með nánu samstarfi Landspítala og SÁÁ gerði kleift að ná til sjúklinga með alvarlegan fíknsjúkdóm sem reynsla flestra landa sýnir að erfitt er að ná til. Þetta er talið lykillinn að þeim mikla árangri í meðferð sjúklinga með lifrarbólgu C sem lýst er í greininni. Þessi nálgun varð einnig til þess að samstarf um skimun og meðferð var komið á í fangelsum, félagslegum úrræðum og skaðaminnkandi úrræðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka sem hafa snertiflöt við einstaklinga sem nota vímuefni í æð.
Þrátt fyrir þennan árangur greinast enn einstaklingar með ný smit og þeir sem læknast geta smitast á nýjan leik. Þetta tengist m.a. vaxandi vímuefnaneyslu í landinu og samnýtingu á sprautum og öðrum búnaði. Mikilvægt er að takast á við þessar áskoranir með forvörnum, öflugri meðferð fíknsjúkdóma, skaðaminnkun og lyfjameðferð þeirra sem greinast.
Meðferðarátak gegn lifrarbólgu C
Í ársbyrjun 2016 hófst hér á landi opinbert átak gegn lifrarbólgu C. Þar var öllum sem greinst höfðu með lifrarbólgu C boðin lyfjameðferð með það að markmiði að útrýma sjúkdómnum sem meiri háttar lýðheilsuvandamáls fyrir árið 2030, í takt við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Verkefnið hófst að frumkvæði lækna á Landspítala sem leiddi til þess að lyfjafyrirtækið Gilead féllst á að veita aðgang án endurgjalds að öflugum en afar dýrum lyfjum sem hafa valdið straumhvörfum í meðferð sjúkdómsins. Landspítala var falin framkvæmd verkefnisins en aðalsamstarfsaðili er SÁÁ og sjúkrahúsið Vogur. Yfirumsjón með verkefninu hefur sóttvarnarlæknir í umboði heilbrigðisráðherra. Fyrir tilstuðlan átaksins hafa skjólstæðingar átaksins fengið lyfin án endurgjalds en miklar takmarkanir eru enn á notkun þeirra víða um heim vegna hás kostnaðar. Áætlað er að markaðsvirði þeirra lyfja sem Íslendingar hafa fengið á tímabilinu geti numið allt að 10 milljörðum króna.
Hvað er lifrarbólga C?
Lifrarbólga C er smitsjúkdómur sem veldur bólgu í lifur og orsakast af lifrarbólguveiru C. Talið er að á heimsvísu séu um 70 milljónir manna með sjúkdóminn. Lifrarbólga C er algeng orsök skorpulifrar, lifrarkrabbameins og lifrarbilunar um heim allan.
Markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar
Árið 2016 setti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin það markmið að stefna bæri að útrýmingu lifrarbólgu C sem meiri háttar lýðheilsuvanda fyrir árið 2030. Með því er átt við 80% lækkun á nýgengi og 65% lækkun á dánartíðni vegna lifrarbólgu C. Forsenda þess að hægt væri að ná þessu markmiði væri að greina 90% smitaðra og meðhöndla með lyfjum 80% þeirra sem greindust.
1 Markmið um þjónustuþekjun (e. Service coverage targets) a. greining 90% tilfella b. 80% tilfella meðhöndluð
Iceland lays out roadmap to elimination hepatatis C - infogram
Meðferðarátak gegn lifrarbólgu C hafið - frétt 22. janúar 2016