Kæra samstarfsfólk!
Staða bráðamóttöku Landspítala og raunar heilbrigðismála almennt er í deiglunni. Áhyggjum starfsfólks og stjórnenda á bráðamóttökunni, sem og meðferðarsviðsins sem deildin tilheyrir, deilum við öll sem störfum á spítalanum. Eins og við þekkjum er ekki um vanda bráðamóttökunnar að ræða heldur víðtækari vanda heilbrigðiskerfisins, sem birtist þarna. Unnið hefur verið að úrbótum vegna stöðu bráðamóttökunnar um langt skeið og verulegur árangur náðst. Vandinn er sá að sífellt bætir í álagið svo ekki dugir til. Listinn af úrbótum sem farið hefur verið í af hálfu Landspítala vegna málsins er langur og fjölmargt áunnist. Meðal verkefna sem nefna má er öflugt samstarf við heilsugæsluna sem skilað hefur sér í því að „réttir sjúklingar“ koma á bráðamóttökuna en aðrir fá úrlausn sinna mála hjá heilsugæslunni. Þetta sést t.d. á breytingum á komum sjúklinga og auknu innlagnahlutfalli sjúklinga.
Í febrúar í fyrra var átakshópi sem skipaður var af hálfu heilbrigðisráðuneytis og Landspítala falið að koma með tillögur að úrbótum. Stjórnarráðið | Tillögur átakshóps til að leysa úr vanda bráðamóttöku Landspítala (stjornarradid.is) Hópurinn hafði ekki það hlutverk að fjalla um áhrif skorts á hjúkrunarrýmum á stöðuna en skilaði tillögum sem Landspítali og heilbrigðisráðuneyti hafa haft til úrvinnslu. Fjölmörg verkefni komu í hlut Landspítala og liggja fyrir tillögur og aðgerðir vegna þeirra. Sammerkt þeim er að þau eru öll til bóta en þess eðlis að áhrif þeirra koma ekki fram strax.
Hins vegar er rót vandans sú sama og áður og á meðan ekki er rækilega brugðist við því má búast við að þessi óþolandi staða sé uppi. Eins og stjórnendur og starfsfólk spítalans sem og Embætti landlæknis hafa aftur og ítrekað bent á liggur vandinn einkum í þeirri staðreynd að einstaklingar sem lokið hafa meðferð á spítalanum fá ekki úrlausn sinna mála utan hans. Hér er einkum horft til skorts á hjúkrunarrýmum. Þetta leiðir til þess að pláss fyrir bráðveika sjúklinga sem koma í gegnum bráðamóttökuna og þurfa innlögn eru ekki nógu mörg, því þar eru fyrir á legudeildum einstaklingar sem komast ekki annað, því þeir bíða annarra úrræða. Þetta sést mjög glöggt þegar meðaldvalartími sjúklinga á bráðamóttöku er skoðaður:
Eins og sjá má helst meðaldvalartími þeirra sem ekki þarfnast innlagnar sambærilegur á tímabilinu. Meðaldvalartími er einn helstu mælikvarða sem skilvirkni í heilbrigðisþjónustu er metinn eftir. Sá tími er lágur og jafn á bráðamóttökunni og bera þessar tölur skilvirkni og góðu starfi starfsfólks bráðamóttökunnar gott vitni. Það sama má raunar segja um skilvirkni á öðrum einingum spítalans því ef meðallegutími þeirra sem eru í virkri meðferð á spítalanum er skoðaður er hann 4,6 dagar. Þetta gildir um 95% sjúklinga sem á spítalann leita og þeir eiga 58% legudaganna á Landspítala. Þeir sem ekki komast af spítalanum í betri og meira viðeigandi úrræði þegar virkri meðferð er lokið eiga hins vegar að meðaltali langa bið fyrir höndum. Þetta eru 5% sjúklinga en eiga 42% legudaganna. Þessi vandi fer nú aftur nú vaxandi. Á myndinni sést áberandi dýfa í þessum dvalartíma snemma árs 2020 en þá var einmitt opnað hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg og fólk sem dvaldi á Landspítala og lokið hafði meðferð fékk forgang í þau rými. Nú sækir svo í sama farið, eins og viðbúið var, en við erum ekki alveg komin á sama stað enda hefur verið unnið sleitulaust að öðrum lausnum. Hins vegar standa nú vonir til þess að gengið verði frá samningum um opnun hjúkrunarrýma síðar á þessu ári (https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/12/10/Storfjolgun-hjukrunarryma-a-naesta-ari/) og þeim er ætlað að brúa bilið þar til markmiðum um fjölgun hjúkrunarrýma hefur verið náð (Stjórnarráðið | Staða áætlunar um uppbyggingu hjúkrunarrýma (stjornarradid.is). Binda má vonir við að þetta hafi veruleg áhrif til hins betra á útskriftir sjúklinga og þar með aðstæður á bráðamóttöku.
Það er rétt að árétta að við starfsfólk Landspítala leggjum okkur svo sannarlega fram við að sinna öllum þeim sem á spítalanum dvelja vel, af bæði umhyggju og fagmennsku, í samræmi við gildi spítalans. Það er hins vegar mikilvægt að nýta takmarkaðar auðlindir spítalans til þeirra verkefna sem honum eru sérstaklega ætluð og starfsfólk hefur sérþekkingu til en það eru sérhæfð sjúkrahúsþjónusta og almenn sjúkrahúsþjónusta fyrir höfuðborgarsvæðið, auk menntunar og vísindastarfs.
Eins og ég hef oft rætt á þessum vettvangi þá á starfsemi spítalans sér marga góða vini. Rjóður er sérhæfð hjúkrunar-, hvíldar- og endurhæfingarþjónusta fyrir börn sem rekin er af Landspítala. Rjóður er stórt og fallegt heimili og á alveg sérstakan stað í hjörtum margra. Þar er fremstur meðal jafningja stórvinur Rjóðursins, Jón Gunnar Geirdal. Jón stendur nú ásamt fleirum fyrir fjársöfnuninni „Gefðu fimmu“ og nú stendur til að bæta við aðstöðu til endurhæfingar og skynörvunar í Rjóðrinu. Við vonumst líka til að geta lagað útisvæðið við Rjóðrið og jafnvel koma upp nýjum tækjum fyrir börnin. Lionsmenn í Kópavogi eru ekki síður stórvinir Rjóðursins og raunar starfseminnar okkar almennt, í Kópavogi og víðar. Í síðustu viku afhenti klúbburinn endurgerðan sal í Iðjuhúsinu en þar höfðu fræknir Lionsmenn lagt 2000 vinnustundir í að endurbæta húsið. Lionsmenn létu ekki þar við sitja heldur skrifuðu við þetta tækifæri undir samning við Kópavogsbæ um uppbyggingu klúbbsins á Kópavogsbúinu svokallaða. Það er elsta hús Kópavogsbæjar og mun fyrir tilstuðlan Lionsklúbbsins og Kópavogsbæjar hýsa aðstandendur barna sem dvelja í Rjóðri og þá aðstandendur sjúklinga á líknardeildinni okkar sem koma af landsbyggðinni. Við erum afskaplega þakklát og djúpt snortin af þessum vinarhug.
(Lionsmenn í Kópavogi endurnýja hús fyrir Rjóður og aðstandendur fólks á líknardeild)
Góða helgi!
Páll Matthíasson