Birtingasjóður Landspítala, sem stofnaður var á árinu 2021, hefur þann tilgang að hvetja starfsmenn spítalans til vísindastarfa og birtinga á vísindagreinum í öflugum og virtum vísindaritum.
Birtingarsjóðurinn er þannig til kominn að stofnframlagið er fengið með sölu Landspítala á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækinu Oculis, sem Einar Stefánsson prófessor stofnaði á sínum tíma og er nú skráð á markað.
Birtingasjóður fellur undir skipulagsskrá Landspítalasjóðs Íslands. Stofnfé hans var 35,3 milljónir króna. Reglur um starfsemi sjóðsins hafa verið samþykktar af stjórn hans sem er skipuð stjórnendum á Landspítala; forstjóra, framkvæmdastjóra lækninga, framkvæmdastjóra hjúkrunar, yfirlækni vísindadeildar og formanni vísindaráðs.
Í 2. grein reglnanna er markmiðum sjóðsins lýst:
Birtingasjóði er ætlað að styðja við vísindastarf starfsfólks Landspítala. Mögulegir umsækjendur eru starfsmenn spítalans. Umsækjendur þurfa að vera fyrsti eða síðasti höfundur á vísindagrein sem lýsir rannsóknaniðurstöðum verkefna sem unnin eru á Landspítala og eru merktar honum. Markmiðið er tvíþætt; 1) Hvetja vísindafólk á Landspítala til að skipuleggja framkvæmd metnaðarfullra vísindaverkefna sem líkleg eru til að leiða til birtinga í erlendum vísindaritum með háan áhrifastuðul (Impact Factor = IF). 2) Búa til hvata fyrir starfsfólk Landspítala til að verja tíma sínum í að stunda vísindarannsóknir þar sem vísindamenn spítalans eru leiðandi aðilar rannsóknar.
Stjórn Birtingasjóðs Landspítala ákveður upphæðir styrkveitinga og úthlutun styrkja árlega í samræmi við hlutverk sjóðsins. Verkefnastjóri vísindaráðs hefur daglega umsjón með sjóðnum. Á stjórnarfundi 16. apríl var fjallað um upphæðir styrkja:
Tillaga lá fyrir stjórn um að upphæð hvatningastyrks til starfsmanns fyrir grein sem birtist í tímariti í flokki A verði 150 þúsund krónur, 75 þúsund krónur fyrir grein sem birtist í tímiriti af flokki B og 50 þúsund krónur fyrir grein sem birtist í tímariti af flokki C. Upphæð styrks fyrir birta grein getur þannig hæst orðið 150 þúsund krónur á hvern starfsmann og heildarupphæð fyrir hverja grein orðið hæst 300 þúsund krónur. Þessi tillaga var samþykkt samhljóða. Áætlað er að árleg fjárútlát vegna þessara greiðslna geti numið 4-8 milljónum króna árlega.