Kæra samstarfsfólk
Nú hefur verkefnið „Betri vinnutími vaktavinnumanna“ tekið gildi. Hér er komin mesta breyting á vinnutíma vaktavinnumanna í marga áratugi, afskaplega jákvæð þróun og mikil framför enda hafa þessar breytingar verið baráttumál til margra ára. Markmið breytinganna er meðal annars að gera vaktavinnu meira aðlaðandi og eru væntingar til þess að fleiri starfsmenn geti litið á vaktavinnu sem aðlaðandi valkost. Innleiðing á betri vinnutíma hefur að mestu leyti gengið vel á Landspítala, raunar svo að litið er til þess hversu vel hefur miðað en vissulega hafa verið áskoranir í svo stóru verkefni. Þetta lýtur einkum að starfsfólki sem er með mikla sérhæfingu, eins víða er hjá okkur. Eins er innleiðing breytts vinnutíma í byrjun sumars mikil áskorun fyrir starfsmenn og stjórnendur spítalans. Innleiðing og eftirfylgd svona stórs verkefnis er sameiginlegt verkefni starfsmanna og stjórnenda þar sem það er ávinningur beggja aðila að vel takist til. Ýmsum atriðum innleiðingarinnar er ekki að fullu lokið og er unnið markvisst að í þeim. Mörg sóknarfæri og vannýtt tækifæri eru enn til staðar fyrir Landspítala og starfsmenn í þessu umbreytingaferli sem unnið verður að á næstu vikum og mánuðum til að markmið innleiðingarinnar á betri vinnutíma vaktavinnumanna náist. Vaktavinnufólk á Landspítala hefur aukið við sig starfshlutfalli sem nemur um 200 stöðugildum en þó vantar enn um 100 stöðugildi. Þessu viljum við helst mæta með því að fá starfsmenn til að auka við sig starfshlutfall en einnig þarf að líta til frekari ráðninga. Aukin yfirvinna er afleitur kostur enda myndi slíkt vinna gegn markmiðum verkefnisins auk þess að vera kostnaðarsamt. Við munum því halda áfram markvissum kynningum á þessu mikilvæga verkefni fyrir starfsmenn og stjórnendur og finna leiðir í samvinnu til að leysa þau mál sem út af standa.
Spítalasýkingar eru mikil ógn á sjúkrahúsum en þar er átt við sýkingar sem sjúklingar verða fyrir í legu sinni á spítala. Öflugar sýkingavarnir eru gríðarlega mikilvægar og hefur sýkingavarnadeild Landspítala m.a. það hlutverk að leiðbeina starfsfólki um sýkingavarnir á spítalanum. Þetta er gríðarmikilvæg starfsemi og óhætt að segja að deildin hafi lyft grettistaki í þessum efnum á spítalanum í samvinnu við starfsfólk. Spítalasýkingar geta verið afar hættulegar sjúklingum auk þess sem þær eru mjög kostnaðarsamar og því til mikils að vinna. Landspítali hefur sett sér metnaðarfullt markmið um að hlutfall spítalasýkinga sé 5,3% Nú hefur sá árangur náðst undir forystu sýkingavarnadeildar að spítalasýkingar eru 4,5 %! Þetta má þakka mikilli árvekni starfsfólks, fylgni við leiðbeiningar og metnaði fyrir smitvörnum. Árangurinn er í raun ótrúlegur miðað við það húsnæði sem starfsemin okkar er víða í, skort á einbýlum og algengi fjölbýla og má gera ráð fyrir að sú staðreynd verði hinn takmarkandi þáttur í frekari árangri. En þetta er hreinlega frábær árangur – til hamingju öll!
Í vikunni komu fræknar konur færandi hendi á Landspítala. Þar er á ferðinni hópur öflugra kvenna sem fyrir skemmstu gengu á Hvannadalshnjúk, eða Kvennadalshnjúk eins og hnjúkurinn nefndist a.m.k. þann daginn. Yfir hundrað konur tóku þátt í þessu skemmtilega verkefni sem Guðrún Sigríður Ágústsdóttir er hvatakona að ásamt Snjódrífunum. Snjódrífurnar, sem standa að baki Lífskrafti söfnuðu með þessu átaki 17,5 mkr og afhentu stjórnendum blóð- og krabbameinsdeildar upphæðina. Gert er ráð fyrir að þessi glæsilega gjöf og sá góði hugur sem að baki henni stendur skili sér í bættri aðstöðu fyrir sjúklingana okkar og fjölskyldur þeirra. Við erum afskaplega þakklát öfluga hópi og minnir það okkur á þann góða hug sem almennt er í samfélaginu til starfseminnar á spítalanum.
Njótið helgarinnar!
Páll Matthíasson