Snjódrífurnar sem standa að baki góðgerðarfélaginu Lífskraftur söfnuðu 17,5 milljónum króna til uppbyggingar á nýrri blóð- og krabbameinslækningadeild og afhentu féð 2. júní 2021. Söfnunarféð er afrakstur göngu 126 kvenna upp á „Kvennadalshnjúk“ eða Hvannadalshnjúk um mánaðamót apríl og maí.
Hluti af þátttökugjaldi vegna fjallgöngunnar rann í söfnunina, jafnframt hlaut verkefnið góðan stuðning frá einstaklingum og fyrirtækjum. Söfnunarféð rennur óskipt til þessarar nýju deildar og er hugsað til að bæta aðbúnað og upplifun sjúklinga með blóðsjúkdóma og krabbamein.
Upphafskona Lífskrafts, G. Sigríður Ágústsdóttir (Sirrý) háði sjálf áralanga glímu við krabbamein og eftirköst þess. Leiðangursstjórar í hnjúksgöngunni voru Snjódrífurnar Brynhildur Ólafsdóttir og Vilborg Arna Gissurardóttir. Hver lína var svo leidd af jöklaleiðsögukonu og í hverri línu voru sex konur.
G. Sigríður Ágústsdóttir, Lífskrafti: „Árangurinn fór fram úr okkar björtustu vonum", segir Sirrý. Hugmyndin að ferðinni kviknaði þegar hún vildi fagna þeim áfanga að fimm ár voru liðin síðan læknar sögðu að hún ætti í mesta lagi 1-3 ár eftir ólifað. Árin séu reyndar nú orðin sex því fresta þurfti upphaflegri tímasetningu um ár vegna Covid faraldursins. Hugmyndin hafi svo vaxið og dafnað hjá sínum góða vinkonuhópi og afraksturinn orðið þessi fjölmenna ganga sem sýni vel kraft kvennasamstöðunnar og mikilvægi þess fyrir samfélagið.
„Þau gleðilegu tíðindi urðu svo að hver einasta kona sem lagði í förina komst upp á þennan hæsta tind landsins sem er alls ekki gefið í svo fjölmennri og erfiðri ferð sem þessari,” segir Sirrý ennfremur.
Ragna Gústafsdóttir, deildarstjóri blóð- og krabbmeinslækningadeildar Landspítala: „Starfsfólk blóð- og krabbameinslækningadeildar er mjög þakklátt og á ekki til orð af gleði yfir framtaki Snjódrífanna og þeirra kvenna sem gengu upp á Kvennadalshnúk. Gjöfin á eftir að gjörbreyta aðstöðunni hér bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsmenn. Hér er mikil gleði og þakklæti með þessa höfðinglegu gjöf. Það er virkilega þarft að geta bætt aðbúnað fyrir sjúklinga, aðstandendur og einnig fyrir starfsmenn. Markmiðið er að gera umhverfi sjúklinga meira aðlaðandi og bæta upplifun notenda á spítalaumhverfinu. Það skiptir miklu máli hvernig er tekið á móti fólki sem kemur á sjúkradeildina og hvernig upplifun þess er af umhverfinu.
Blóð- og krabbameinslækningadeild hefur verið sameinuð i eina stóra einingu sem eru 28 rúm. Deildin verður enn stærri í haust þegar hún tekur við konum með krabbamein í kvenlíffærum. Þessar konur hafa hingað til legið á kvensjúkdómadeild. Þegar sjúklingar eru í meðferð til að mynda vegna blóðsjúkdóma þurfa þeir oft að vera í einangrun inn á sjúkrastofum í tíu til fjórtán daga og jafnvel lengur. Þetta er gríðarlega íþyngjandi ofan á sjúkdóminn. Því verður það eitt af fyrstu áhersluverkefnum okkar að bæta aðstöðu og dvöl sjúklinga sem þurfa að vera á einangrunarherbergjum deildarinnar. Létta sjúklingum lífið eins og hægt er og brúa bil milli heimilis og sjúkrahúss.
Krabbamein er fjölskyldusjúkdómur og viljum við hafa aðstandendur eins mikið hjá sjúklingum og hægt er. Því er mikilvægt að bæta aðstöðu, hér dvelja fjölskyldur oft allan sólarhringinn og þurfa gott athvarf. Það þarf að geta borðað, lagt sig og fengið næði til andrýmis. Það skiptir svo miklu máli að aðbúnaður sé sem bestur. Svona gjafir skipta starfsemina og notendur miklu máli, það fjármagn sem deildinni er úthlutað fer í almennan rekstur deildar. Því er mikilvægt að fá gjöf sem þessa til að bæta aðbúnað sjúklinga og aðstandenda.”