Kæra samstarfsfólk!
Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild (HUT) heldur hátíðlega Daga upplýsingaöryggis sem vitundarvakningu um þetta málefni á Landspítala dagana 17.–31. maí 2021. Þar verða málefni upplýsingaöryggis sett í sviðsljósið með bæði almennri og sértækri fræðslu á borð við notkun sjúkraskár og eftirlit með notkun hennar. Hér er rætt við Ólaf Baldursson framkvæmdastjóra lækninga um rétta notkun sjúkraskrár.
Á Landspítala starfar lyfjanefnd sem vinnur að öruggri og skynsamlegri notkun lyfja á Landspítala og öðrum opinberum heilbrigðisstofnunum með það að markmiði að tryggja öryggi við umsýslu lyfja og að saman fari fagleg og fjárhagsleg ábyrgð við val á lyfjum og notkun þeirra. Lyfjanefnd Landspítala er skipuð til fimm ára og nýverið skipaði heilbrigðisráðherra, eftir tilnefningu minni, Helgu Eyjólfsdóttur, lyf- og öldrunarlækni, sem formann nefndarinnar. Hér er rætt við Helgu um hlutverk nefndarinnar og framtíðarsýn ásamt því að við forvitnumst stuttlega um faglegan bakgrunn hennar.
Skimun fyrir brjóstakrabbameini fer nú fram í Brjóstamiðstöð Landspítala sem er á Eiríksstöðum að Eiríksgötu 5 í Reykjavík. Í nýrri Brjóstamiðstöð er nú saman komin brjóstamyndgreining og margvísleg göngudeildarþjónusta skurðlækna, krabbameinslækna og hjúkrunarfræðinga. Hér er tæknin nýtt til hins ítrasta og í nýju myndskeiði, sem er nú komið í víðtæka dreifingu á helstu miðlum 21. aldarinnar, er farið nákvæmlega yfir ferlið með myndrænum og lifandi hætti, allt frá aðkomu skjólstæðinga að húsinu og innskráningu til sjálfrar skimunarinnar.
Nú er unnið hörðum höndum að undirbúningi nýrrar deildar á Landspítala, sem mun heita sjúkraskrár- og skjaladeild og tilheyra framkvæmdastjórum hjúkrunar og lækninga. Áætlað er að hrinda deildinni af stokkunum hinn 1. júní. Verkefnastofa Landspítala hefur haft veg og vanda af skipulagi undirbúningsvinnunnar. Fjölmargar nýjungar eru í deiglunni og miklar umbætur á verkefnum fyrirhugaðar á umsjón og ritun sjúkraskrár og reyndar skjalavörslu á Landspítala heilt yfir.
Landspítali stendur árlega fyrir þjónustukönnun meðal sjúklinga og í úrtaki er hluti þeirra sjúklinga sem útskrifaðist af spítalanum nýverið (febrúar, mars og apríl 2021). Þeir hafa fengið sent bréf með boði um þátttöku og lykilorð að könnuninni sem er rafræn. Tilgangur könnunarinnar er að afla upplýsinga um viðhorf sjúklinga til þjónustu spítalans og nota niðurstöðurnar til þess að bæta hana. Landspítali er þakklátur svörum þeirra sem taka þátt enda eru upplýsingar af þessu tagi mjög mikilvægar fyrir spítalann.
Bolvíkingurinn Halldóra Víðisdóttir er hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Laugarásnum en það er framsækin meðferðargeðdeild sem þjónustar skjólstæðinga á aldrinum 18-35 ára með geðrofssjúkdóma á byrjunarstigi. Halldóra er núna að taka við stöðu deildarstjóra hjá geðrofsteymi spítalans sem þjónustar einstaklinga með langvinna geðrofssjúkdóma með meðferð og eftirfylgni úti í samfélaginu á þeim stað sem fólk er í sínu bata- og veikindaferli. Í skemmtilegri mannauðsmínútu er forvitnast um helstu verkefni og bakgrunn Halldóru og hvernig nýja samfélagsgeðrofsteymið mun starfa. Þess má geta að markmið starfseminnar hjá bæði Laugarásnum og nýja geðrofsteyminu er að bæta líðan og efla færni einstaklinga til að lifa sjálfstæðu og gefandi lífi með sem mestum lífsgæðum. Starfsemin er einstaklingsmiðuð, sveigjanleg og allt gert til að mæta þörfum hvers og eins hverju sinni. Mannauðsmínútur Landspítala eru skemmtilegt uppbrot á kynningarstarfsemi okkar, sem veitir dýrmæta innsýn í starfsemi, verkefni og mannauð spítalans.
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Leit
Loka