„Heilbrigðisþjónusta nýrra tíma“ er yfirskrift ráðstefnu sem heilbrigðisráðuneytið og Landspítali halda um þróun heilbrigðisþjónustu á tímum breytinga. Ráðstefnan verður í beinni útsendingu á miðlum Landspítala þriðjudaginn 1. júní 2021, kl. 14:00-16:00.
Nýsköpunarvikan 26. maí til 2. júní 2021 er hátíð þar sem fyrirtækjum og frumkvöðlum gefst kostur á að standa fyrir nýsköpunartengdum viðburðum þar sem spennandi sóknarfæri og frjóar hugmyndir geta sprottið upp. Hátíðin vekur athygli á nýsköpun sem á sér stað innan stofnana, fyrirtækja og sprotafyrirtækja þar sem framúrstefnulegar lausnir, ólík sköpunarferli og kraftmiklir frumkvöðlar fá notið sín. Nýsköpunarvikan er þannig vettvangur fyrir innlenda jafnt sem erlenda aðila til að kynnast nýsköpun á Íslandi, tengjast sprotum, fjárfestum og frumkvöðlum og mynda ný viðskiptasambönd og tengsl.
Dagskrá nýsköpunarvikunnar
Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu hefur blómstrað undanfarin misseri þar sem snerpa, sveigjanleiki og samstarf eru hugtök sem gegna lykilhlutverki við að móta nýjar leiðir í því að veita heilbrigðisþjónustu. Styrkir til nýsköpunar hafa gert stofnunum, fyrirtækjum og sprotum kleift að hrinda í framkvæmd verkefnum og breytingum sem eru til hagsbóta fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda samhliða því að auka öryggi og hagkvæmni þjónustunnar.
Á ráðstefnunni verða kynnt 6 nýsköpunarverkefni í heilbrigðisþjónustu og kynntir verða 13 styrkhafar nýrra gæða- og nýsköpunarverkefna. Því til viðbótar verður slegið á þráðinn út á landsbyggðina og forvitnast um nýsköpunarverkefni í heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.
Ráðstefnan er lokuð gestum af sóttvarnaraðstæðum og því streymt í beinni útsendingu og hún er síðan aðgengileg í upptöku eftir á.
Dagskrá
14:00
Setningarávarp: Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra
14:10
Atferlisþjálfun ungmenna
Beanfee-verkefnið
Helgi Karlsson
14:25
Öðruvísi göngudeildarþjónusta: Covid-göngudeildin
Runólfur Pálsson, Landspítala
14:40
Teymisvinna í göngudeildarþjónustu: Eiríksstaðir og brjóstamiðstöðin
Lilja Stefánsdóttir, Landspítala
14:55
Landspítalaappið: Stuðningur við sjúklinga í sjúkrahúslegu
Arnar Þór Guðjónsson, Landspítala
15:10
Meðvera í Heilsuveru: Skráning á eigin sjúkrasögu
Kristín Skúladóttir, Landspítala og Guðrún Auður Harðardóttir, Embætti landlæknis
15:25
Fjarheilbrigðislausnir á Austurlandi: Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu
Guðjón Hauksson, Heilbrigðisstofnun Austurlands
15:40
Afhending styrkja heilbrigðisráðuneytis til 13 nýrra gæða- og nýsköpunarverkefna í heilbrigðisþjónustu
15:55
Lokaorð
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala
16:00
Ráðstefnulok
Fundarstjóri: Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins