Vísindi á vordögum á
Landspítala 28. apríl 2021
Ávarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Kæru gestir!
Mér er það heiður og ánægja að opna þessa dagskrá hér í dag, sem vísindaráð og vísindadeild Landspítala halda. Í upphafi átti þessi uppskeruhátíð að fara fram fyrir ári síðan. Vegna aðstæðna af völdum COVID-19 ákvað vísindaráð Landspítala í samráði við stjórn vísindasjóðs að fresta þessum viðburði um óákveðinn tíma og nú er loks komið að uppskeruhátíðinni, þar sem vísindamenn eru heiðraðir fyrir vinnu sína.
Á undanförnu ári höfum við lært mikið um veiruna sem enn herjar á heimsbyggðina. Sá lærdómur byggist á þekkingu sem rannsóknir og vísindi hafa skapað. Mikilvægi rannsókna og vísinda hefur því orðið öllum enn ljósara en áður og ég held að við séum öll tilbúnari en áður til að nýta reynslu okkar af glímunni við farsóttina til þess að efla tengsl vísinda við samfélagið og okkar daglega líf.
Landspítali er háskólasjúkrahúsið okkar og þar fer fram ein viðamesta vísindavinna á heilbrigðissviði á landinu, í samstarfi við háskóla og aðrar stofnanir. Sterkar vísindarannsóknir eru eitt grundvallarskilyrða fyrir því að heilbrigðisþjónusta uppfylli hæstu gæðakröfur og standist samanburð við önnur lönd en það er markmið sem heilbrigðisyfirvöld hérlendis stefna að.Vísindarannsóknir eru auk þess stór hluti af menntun heilbrigðisstarfsmanna og góð aðstaða og umhverfi til iðkunar vísindarannsókna reynist oft mjög mikilvægur þáttur í því að fá til starfa hæft heilbrigðisstarfsfólk. Heilbrigðisvísindarannsóknir á Íslandi hafa verið sterkar og ég tel mikilvægt að stuðla að því að sú þróun haldi áfram og að góður jarðvegur sé skapaður fyrir frjóa vísindavinnu. Í samræmi við heilbrigðisstefnu sem var samþykkt á Alþingi árið 2019 hef ég lagt ríka áherslu á að styrkja stoðir vísinda á heilbrigðissviði í embætti heilbrigðisráðherra.
Vísinda- og tækniráð birti nú í september síðastliðnum aðgerðaáætlun Vísinda- og tæknistefnu til áranna 2020-2022. Þar er lögð mikil áhersla á að vísindi og nýsköpun gegni lykilhlutverki í viðspyrnunni eftir Covid-faraldurinn. Meðal þeirra 10 aðgerða sem lagðar eru til grundvallar stefnu Vísinda- og tækniráðs er aðgerð um eflingu vísindarannsókna og nýsköpun á heilbrigðissviði. Samkvæmt þeirri aðgerð verða rannsóknir og nýsköpun á heilbrigðissviði efld og opinber fjármögnun í rannsóknir og nýsköpun aukin. Í umfjöllun um þennan verkhluta í stefnu Vísinda- og tækniráðs er einnig vísað í Heilbrigðisstefnu til 2030 og vísað til þess að til stendur að stofna heilbrigðisvísindasjóð, rannsóknasjóð í heilbrigðisvísindum, eftir að staða fjármögnunar á sviði heilbrigðisvísinda hefur verið greind. Heilbrigðisráðuneyti ber ábyrgð á framkvæmd þess verkefnis og greiningin mun liggja fyrir árið 2021.
Í sumar sem leið fengu tólf heilbrigðistengd verkefni fjármögnun úr fjárfestingarátaki um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu en styrkurinn nam samtals 148 milljónum króna. Átakið er einn liður í fyrrnefndri aðgerð 10 í stefnu Vísinda- og tækniráðs um eflingu vísindarannsókna og nýsköpunar á heilbrigðissviði. Markmið átaksins var að auka nýsköpun með þarfir heilbrigðisþjónustu að leiðarljósi og fjölga á sama tíma störfum eftir að Covid-19-faraldurinn skall á. Það verður spennandi að fylgjast með þeim verkefnum sem hlutu styrk en verkefnin eru fjölbreytt og áhugaverð; til dæmis má nefna þróun áhættureiknis á augnsjúkdómum vegna sykursýki, hugbúnað til að halda utan um ferli sjúklinga sem greinast með brjóstakrabbamein og þróun spálíkans fyrir gjörgæslur á Landspítala.
Heilbrigðisráðuneytið auglýsti nú á dögunum eftir umsóknum um styrki til gæða- og nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu og er unnið að yfirferð þeirra umsókna í þessum töluðu orðum. Þessir styrkir eru nýir af nálinni hjá okkur og koma í stað eldri styrkveitinga til gæðaverkefna í heilbrigðisþjónustunni.
Það starf sem unnið er á Landspítalanum við að mennta ungt fólk til vísindastarfa er ómetanlegt. Hér lærir ungt fólk vísindalega hugsun, það lærir að vera gagnrýnið og spyrjandi, sem er það sem við þurfum til að byggja upp sterkar undirstöður fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi okkur öllum til heilla. Tækifærin eru mörg og spennandi á sviði vísindarannsókna á heilbrigðissviði á Íslandi. Það munum við eflaust sjá og heyra meira af í dag í kynningum vísindafólksins sem hér flytur sín erindi.
Takk fyrir mig og gangi ykkur vel í dag!
(Talað orð gildir)