Vísindasjóður úthlutaði styrkjum til 74 rannsóknarverkefna vorið 2021, þar af voru 46 ný verkefni sem hlutu styrk. Heildarupphæð styrkja nam um 83 milljónum króna og nemur meðalstyrkur rúmlega 1 milljón króna.
Úthlutun styrkja var með rafrænum hætti en Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala og formaður stjórnar Vísindasjóðs Landspítala, afhenti styrkina formlega með ávarpi á Vísindum á vordögum í beinu streymi 28. apríl 2021.
Styrkhafar Vísindasjóðs Landspítala vorið 2021
Vísindasjóður Landspítala er rannsóknarsjóður sem árlega veitir allt að 100 milljónir króna í rannsóknarstyrki til starfsmanna spítalans. Tilgangur Vísindasjóðs Landspítala samkvæmt skipulagskrá hans er að styrkja og efla vísindarannsóknir, athuganir og tilraunir í vísindalegum tilgangi á Landspítala eða í náinni samvinnu við hann. Vísindaráð Landspítala er til ráðgjafar um vísindastarf á Landspítala, hefur veg og vanda af úthlutun styrkja úr Vísindasjóði Landspítala og veitingu viðurkenninga fyrir vísindastörf á spítalanum.