Gunnar Guðmundsson er heiðursvísindamaður Landspítala 2021 og hlýtur hann viðurkenninguna fyrir framúrskarandi framlag til vísinda á ferli sínum. Gunnar er sérfræðingur í lungnalækningum við lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala.
Heiðursvísindamaður Landspítala er útnefndur ár hvert og hefur vísindaráð Landspítala veg og vanda af útnefningunni. Eins og hefð er fyrir hélt heiðursvísindamaðurinn fyrirlestur um rannsóknir sínar að lokinni útnefningu og afhendingu heiðursskjals og 300 þúsund króna heiðursverðlauna.
Gunnar lauk kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1988. Hann lauk doktorsprófi frá sama skóla árið 2000. Hann var við sérfræðinám við University of Iowa Hospitals and Clinics í Iowa City í Bandaríkjunum um sjö ára skeið og lauk þaðan sérfræðinámi í lyflækningum, lungna- og gjörgæslulækningum. Hann hefur lokið bandarískum sérfræðiprófum í lyflækningum, lungna- og gjörgæslulækningum og hefur sérfræðiviðurkenningu hérlendis í sömu sérgreinum. Gunnar hefur starfað við lungnadeild Landspítala frá 1998.
Gunnar er prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Hann hefur komið að félags- og nefndarstörfum hjá alþjóðlegum lungnasamtökum og verið formaður Félags íslenskra lungnalækna.
Helsta áhugasvið Gunnars í vísindarannsóknum snýr að lungnasjúkdómum. Gunnar hefur unnið mjög náið með Hjartavernd að rannsóknum á millivefslungnabreytingum sem geta verið forstig lungnatrefjunar og hafa niðurstöður rannsókna þeirra vakið mikla athygli, birst í mjög virtum tímaritum og aukið skilning á tilurð og framþróun lungnatrefjunar. Gunnar undirbýr nú frekari rannsóknir á millivefslungnabreytingum, þar á meðal með notkun sjálfvirks úrlesturs til greiningar. Þá hefur Gunnar unnið með alþjóðlegum rannsóknarhópum að rannsóknum á erfðafræði lungnatrefjunar. Hafa rannsóknirnar meðal annars sýnt fram á mikilvægi stökkbreytinga í genum sem hafa með slímframleiðslu að gera í meingerð lungnatrefjunar. Hafa þessar uppgötvanir leitt til grundvallarbreytinga á hugmyndum um tilurð lungnatrefjunar og leitt af sér nýja nálgun í áhættumati og meðferð slíkra sjúkdóma.
Einnig hefur Gunnar unnið að klínískum rannsóknum á langvinnri lungnateppu. Þar má nefna samstarfsverkefni með norrænum háskólasjúkrahúsum sem varpaði ljósi á samverkan annarra sjúkdóma með langvinnri lungnateppu. Hann hefur hlotið styrki frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Vísindasjóði Landspítala, Rannsóknamiðstöð Íslands auk fleiri aðila.