Elías Sæbjörn Eyþórsson er ungur vísindamaður Landspítala 2021 og hlaut hann viðurkenninguna fyrir athygliverðan og góðan árangur á sviði vísindarannsókna. Elías er sérnámslæknir.
Ungur vísindamaður Landspítala er útnefndur ár hvert og fer valið fram í kjölfar innsendingar ágripa veggspjalda og ferilskráa. Vísindaráð Landspítala hefur veg og vanda af vali og útnefningu. Eins og hefð er fyrir hélt Elías fyrirlestur um helstu niðurstöður rannsókna sinna að lokinni útnefningu á Vísindum á vordögum 2021, afhendingu viðurkenningarskjals og afhendingu 250 þúsund króna verðlaunafjár.
Elías Sæbjörn Eyþórsson lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðibraut Menntaskólans í Reykjavík árið 2009. Hann hlaut bakkalárgráðu í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012 og lauk embættisprófi í læknisfræði frá sama skóla árið 2016. Að loknu kandídatsári hóf hann sérnám í almennum lyflækningum og skipti svo yfir í sérnám í svæfingar- og gjörgæslulækningum árið 2021.
Árið 2013 hóf Elías doktorsnám í líf- og læknavísindum samhliða námi í læknisfræði. Leiðbeinandi var Ásgeir Haraldsson prófessor í barnalæknisfræði. Doktorsverkefnið fjallaði um lýðgrunduð áhrif ungbarnabólusetningar gegn bakteríunni Streptococcus pneumoniae. Algengustu birtingarmyndir pneumókokkasýkingar eru miðeyrnabólgur og lungnabólgur en hún veldur einnig heilahimnubólgum og blóðsýkingum. Árið 2011 var byrjað að nota samtengt pneumókokkabóluefni við ungbarnabólusetninga á Íslandi. Rannsóknir Elíasar leiddu meðal annars í ljós að eftir að bólusetningarnar hófust varð töluverð lækkun á tíðni miðeyrnabólgu, lungnabólgu og ífarandi pneumókokkasýkinga hjá bæði bólusettum börnum og óbólusettum börnum og fullorðnum vegna hjarðónæmis. Kostnaðarnytjagreining gaf til kynna að fyrir hverja krónu sem fjárfest var í bóluefnið fengust tvær til baka vegna sparnaðar sem hlaust af færri spítalalegum og minna vinnutapi.
Elías hefur birt á annan tug vísindagreina í erlendum vísindatímaritum og hefur kynnt rannsóknir sínar á fjölmörgum ráðstefnum bæði innan lands og utan. Elías vinnur nú að rannsóknum á Covid-19 undir handleiðslu Runólfs Pálssonar og Martins Inga Sigurðarssonar prófessora við læknadeild Háskóla Íslands, og var fyrsti höfundur að grein um einkennamynstur Covid-19 sem birtist í British Medical Journal í desember 2020.