Ólafur Baldursson hefur verið endurráðinn framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala.
Starf framkvæmdastjóra lækninga er skilgreint í lögum um heilbrigðisþjónustu. Hann ber ábyrgð á sérstökum verkefnum sem fjalla um gæði og þróun lækninga, þvert á skipulagseiningar spítalans, og ber í samvinnu við framkvæmdastjóra hjúkrunar ábyrgð á rekstri þriggja deilda: gæða- og sýkingavarnardeildar, menntadeildar og vísindadeildar. Hlutverk deildanna er að móta stefnu, samræma, styðja og hafa eftirlit með gæðamálum og sýkingavörnum, vísindastarfi og kennslumálum. Við þessar þrjár deildir bætist síðan ný sjúkraskrár- og skjaladeild nú á vordögum 2021. Einnig skal nefna að verkefnastofa Landspítala heyrir undir framkvæmdastjóra lækninga.
Framkvæmdastjóri lækninga er yfirmaður námslækna og ber ábyrgð á þróun sérnáms í lækningum. Hann tekur þátt í ráðningu yfirlækna og er umsjónaraðili sjúkraskrár spítalans. Læknum og yfirlæknum spítalans ber að hlíta ákvörðunum framkvæmdastjóra lækninga um fagleg málefni.
Ólafur lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1990. Hann lauk sérnámi og sérfræðiprófum í lyflækningum og lungnalækningum við háskólasjúkrahúsið í Iowa City í Bandaríkjunum árið 2000 (American Board of Internal Medicine). Samhliða sérnámi stundaði hann vísindarannsóknir og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2004. Ólafur stofnaði til samstarfs við hóp vísindamanna við Háskóla Íslands sem kom meðal annars á fót nýju frumræktunarlíkani. Uppgötvanir hópsins urðu grunnur að stofnun sprotafyrirtækisins EpiEndo Pharmaceuticals, en fyrirtækið rannsakar nú verkun nýrra lyfja í klínískum rannsóknum á mönnum.
Ólafur hefur birt vísindagreinar í innlendum og erlendum fræðiritum, sinnt akademískum leiðbeinanda- og prófdómarastörfum hérlendis og í Svíþjóð. Hann starfaði sem lektor í sjúkdómafræði við lyfjafræðideild HÍ 2004-2009. Ólafur starfaði á skrifstofu kennslu-, vísinda-, og þróunar Landspítala frá 2005-2007, meðal annars við endurbætur á skipulagi kandídatsárs. Hann var aðstoðarmaður framkvæmdastjóra lækninga 2007-2009, starfandi framkvæmdastjóri lækninga 2009-2011 og skipaður fyrst frá 2011-2016 og síðan 2016-2021. Ólafur hefur starfað sem lyflæknir og lungnalæknir frá árinu 2000 og sinnir nú göngudeildarmóttöku og afleysingum við lyf- og lungnalækningadeildir.