Frá farsóttanefnd á síðasta vetrardegi 2021:
1. Nú liggja 3 einstaklingar á Landspítala með COVID-19. Enginn er í öndunarvél.
2. Um 120 manns eru í eftirliti COVID göngudeildar, þar af ríflega 40 börn.
3. Að undanförnu hefur fjöldi manns lent í sóttkví vegna útsetts heimilismanns. Þá er aðeins sá útsetti skráður í sóttkví af rakningateymi Almannavarna en aðrir geta skráð sig í sóttkví inni á Heilsuveru og sótt þangað vottorð sé þess þörf. Þá setur fólk inn kennitölu hjá þeim sem er í sóttkví og tengist honum þannig í kerfinu.
Aðeins sá sem er í sóttkví vegna útsetningar fær sent strikamerki fyrir sýnatöku. Heimilismenn sem skrá sig með þessum hætti ljúka sóttkví þegar sá útsetti fær neikvætt svar.
4. Í gær var lokið við að bólusetja um 2.100 starfsmenn Landspítala með seinni skammti af Pfizer. Einnig fengu um 80 starfsmenn fyrri bólusetningu. Þá eru óbólusettir um 200-250 starfsmenn og verktakar sem verða boðaðir í bólusetningu þegar meira bóluefni verður úthlutað til Landspítala.
5. Þeir starfsmenn sem fengu bólusetningu með efninu frá Astra Zeneca dagana 10.-11. mars bíða enn úrlausnar sinna mála hvað varðar seinni bólusetningu. Sóttvarnalæknir tekur allar ákvarðanir varðandi þetta mál en farsóttanefnd ásamt bólusetningateyminu er framkvæmdaraðili. Upplýsingar um þetta mál verða settar á vefmiðla Landspítala um leið og þær berast.
Farsóttanefnd þakkar starfsmönnum Landspítala og öðrum fyrir veturinn sem nú er að kveðja og hlakkar til komandi sumars með sól í hjarta.