Kæra samstarfsfólk!
Nú hafa heilbrigðisyfirvöld aflétt nokkrum af þeim takmörkunum sem settar voru fyrir þremur vikum þegar líklegt þótti að stefndi í nýja bylgju COVID-19. Svo virðist sem tekist hafi að komast fyrir hana en áfram greinast þó smit utan sóttkvíar í samfélaginu sem kallar á að fólk sýni hér eftir sem hingað til sérstaka varkárni og viðhafi öflugar persónulegar sóttvarnir.
Farsóttanefnd Landspítala gaf í gær út leiðbeiningar vegna afléttinga hér á spítalanum sem ég hvet ykkur til að kynna ykkur vandlega.
Við leitum ýmissa leiða til að vera góðu sambandi við landsmenn og fylgjum þeim straumum sem helstir eru í því efni. Um allnokkra hríð hefur samskiptadeildin okkar haldið úti hlaðvarpi og nú eru hlaðvarpssyrpur vaxandi þáttur í upplýsingamiðlun Landspítala. Margir fylgjast með hlaðvörpunum „Brautryðjendur í hjúkrun“ og „Dagáll læknanema“ og nú bætist við „Geðvarp" geðhjúkrunarfræðinga. Í fyrsta þættinum ræða geðhjúkrunarfræðingar um samskipti í víðu samhengi. Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum en einnig í streymisveitunum Spotify og Apple iTunes og í hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict.
Landspítali er lifandi og fjölbreyttur vinnustaður þar sem rúmlega 6.000 manns og 2.000 nemendur starfa og nema í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta í meira en 200 deildum. Starfsemin er flókin og ýmislegt sem þarf til svo hún gangi vel og greitt fyrir sig. Hluti starfseminnar er flestum hulin enda kemur hún ekki endilega upp í hugann þegar almenningur hugsar um þjónustu spítalans. Vöruhús Landspítala (áður birgðastöð) og þvottahús tilheyra vöruþjónustu Landspítala og fer meginstarfsemin fram á Tunguhálsi. Vöruhúsið hefur um 8000 vörunúmer og þjónustar Landspítala og aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu. Þvottahúsið okkar er mjög öflugt og þar eru þvegin heil 7 tonn af þvotti á dag og þótt tæknibúnaður sé öflugur þarf mannshöndin að koma að mörgum verkum. Sem dæmi brjótum við saman 2.000 starfsmannabuxur á degi hverjum. Í meðfylgjandi myndbandi er áhugverð innsýn í þessa miklu starfsemi á Tunguhálsi.
Góða helgi!
Páll Matthíasson