Frá farsóttanefnd 15. apríl 2021:
1. Áfram er grímuskylda á Landspítala, án undantekninga, hjá starfsmönnum, gestum og sjúklingum skv. gæðaskjali.
2. Heimsóknir fara í sama horf og fyrir 24. mars. Fleiri en einn gestur getur komið í heimsókn á tilgreindum heimsóknartíma en aðeins einn í einu nema fylgdarmaður sé nauðsynlegur. Heimsóknir barna undir 16 ára aldri eru heimilar að því gefnu að barnið sé einkennalaust, ekki í sóttkví og hafi ekki haft COVID á síðustu 14 dögum. Undanþágur eru áfram á hendi stjórnenda deilda en farsóttanefnd er til ráðgjafar um framkvæmdina ef þörf krefur.
3. Nú mega 20 manns koma saman og miðast fundir og kennsla við það. Fólki í vinnusóttkví er óheimilt að sækja fundi/kennslu.
4. Hætta má hópaskiptingu starfsmanna.
5. Leyfi fullbólusettra sjúklinga sem og sjúklinga sem eru í endurhæfingar- og útskriftarferli eru heimil enda sé ítrustu sóttvarna gætt í leyfinu.
6. Ekki þarf að skima sjúklinga sem flytjast á milli deilda Landspítala og ekki er nauðsynlegt að skima fullbólusetta sjúklinga sem flytjast á aðrar stofnanir eða í þjónustu opinberra aðila. Óbólusettir eða hálfbólusettir sjúklingar eiga að skila COVID sýni fyrir útskrift á stofnun eða í þjónustu opinberra aðila ef þeir hafa legið lengur en 48 klst á Landspítala.
7. Áfram gildir að starfsfólk sem finnur fyrir einkennum sem geta samrýmst COVID skal fara í sýnatöku og vera heima þar til niðurstaða liggur fyrir. Einu gildir hvort viðkomandi er bólusettur eður ei.
8. Áfram gildir að ef heimilismaður starfsmanns fer í sýnatöku vegna einkenna um COVID þá skal starfsmaður vera í úrvinnslusóttkví þar til neikvæð niðurstaða liggur fyrir. Einu gildir hvort starfsmaðurinn er bólusettur eður ei.
9. Allir starfsmenn stunda áfram persónulegar sóttvarnir og viðhafa ítrustu varúðarráðstafanir þegar grunur leikur á um COVID smit hjá sjúklingi eða starfsmanni.
10. Í matsölum og á kaffistofum gildir 1 meters regla. Starfsmenn deilda þurfa að uppfæra spjald á kaffistofu um leyfilegan fjölda í rýminu.
11. Stöðva má öryggisgæslu í matsölum.
12. Heimilt er að dreifa dagblöðum á deildir spítalans.
13. Afgreiðsla matar til starfsmanna er í heildarendurskoðun óháð COVID faraldri og mun verða tilkynnt um þær breytingar þegar tímabært.
Verið er að uppfæra gæðaskjöl til samræmis.
Starfsfólki er bent á að nýta gæðaskjölin í COVID gæðahandbókinni til að glöggva sig á gildandi reglum hverju sinni en vafaatriðum má skjóta til farsóttanefndar - farsottanefnd@landspitali.is