Brjóstamyndgreining röntgendeildar Landspítala hefur flutt starfsemi sína frá Skógarhlíð til Eiríksstaða, Eiríksgötu 5. Starfsemin er staðsett á þriðju hæð. Þar fara fram bæði klínískar rannsóknir og skimunarrannsóknir á brjóstum.
Á Eiríksstöðum er nú í nýrri brjóstamiðstöð brjóstamyndgreining, göngudeildarþjónusta skurðlækna, krabbameinslækna og hjúkrunarfræðinga.
Brjóstaskimanir eru framkvæmdar á vegum Landspítala en einnig er skimað á Sjúkrahúsinu á Akureyri og víðs vegar um landsbyggðina. Samhæfingarstöð krabbameinsskimana heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heldur utan um boðanir, bókanir og niðurstöður brjóstaskimana. Brjóstamyndgreining kvenna sem hafa verið kallaðar inn í kjölfar skimunar og rannsóknir að beiðni lækna þar sem grunur er um sjúkdóma í brjóstum fer fram á einingunni.
Konum á Íslandi er boðin reglubundin skimun fyrir krabbameini í brjóstum í samræmi við skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis. Konum á aldrinum 40 til 69 ára er boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 70 til 74 ára á þriggja ára fresti. Einkennalausar konur 40 til 74 ára geta pantað tíma í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Konum með einkenni frá brjóstum og kvenlíffærum er ráðlagt að leita til læknis. Fólk utan þessa aldursbils á að fara til heimilislæknis síns og fá mat á því hvort ástæða sé til að gera sérskoðun brjósta. Ef svo er þá sendir viðkomandi læknir beiðni á Brjóstamiðstöðina sem kallar svo fólk inn til frekari rannsókna, í svokallaða sérskoðun.
Mynd: Guðrún Birgisdóttir geislafræðingur við nýtt röntgentæki fyrir myndatöku á brjóstum.