Fair Pay Innovation Lab hefur veitt Landspítala sérstaka viðurkenningu fyrir að vera leiðandi vinnustaður og öðrum til fyrirmyndar í jafnlaunamálum með þátttöku í „Universal Fair Pay Check“ sem er alþjóðleg vottun fyrir atvinnulífið á þessu sviði og byggir á samræmdum mælingum á árangri, óháð landamærum.
Universal Fair Pay Check-vottun er stjórntæki sem er ætlað að útrýma óviðeigandi launamun og er undir sérstökum verndarvæng þýska vinnumálaráðuneytisins. Landspítali og Orkuveita Reykjavíkur voru meðal þeirra vinnustaða sem fengu þessa alþjóðlegu vottun en hún var nú veitt í fyrsta skipti. Báðir vinnustaðirnir hljóta viðurkenningu sem Fair Pay Leaders eða jafnlaunaleiðtogar.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítala við afhendingu Fair Pay Check:
„Ég er mjög stoltur af því að Landspítali hafi hlotið þessa vottun og viðurkenningu hjá Universal Fair Pay Check. Jafnlaunavottun vinnustaða er hluti af mikilvægri vegferð atvinnulífsins til að uppfylla grundvallarmannréttindi starfsfólks. Vottanir af þessu tagi eru ekki einnota gátlistar heldur vinnulag með skilgreinda verkferla og rauður þráður í starfsemi þessara vinnustaða. Það þarf samhent átak margra til að hafa þessa hluti hnökralausa. Landspítali hefur nú hlotið bæði íslenskar og alþjóðlegar viðurkenningar sem leiðtogi í jafnlaunavottun og ég vil þakka starfsfólki okkar fyrir þeirra ómetanlega framlag í þessu samhengi.“
Í forstjórapistli sínum 19. mars fjallar Páll einnig um jafnlaunavottunina.
Fair Pay Check veitir alþjóðlega vottun og viðurkenningu í þremur þrepum:
1. Universal Fair Pay Analyst: Vinnustaðurinn hefur framkvæmt jafnlaunagreiningu og kortlagt launamun.
2. Universal Fair Pay Developer: Vinnustaðurinn hefur beitt sér í að útrýma leiðréttum launamun og hann mælist +/-1%.
3. Universal Fair Pay Leader: Leiðréttur launamunur mælist ± 1% og óleiðréttur launamunur mælist ± 10% og vinnustaðurinn beitir sér í gegnsæi, inn á við sem út á við.
Þess má geta að árið 2020 hlaut Landspítali jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85, í kjölfar úttektar sem framkvæmd var af Versa vottun ehf. Niðurstöður sýndu í heildina óverulegan kynbundinn launamun á Landspítala. Yfir 800 starfsmenn Landspítala tóku þátt í starfsmatinu sem jafnlaunavottunin byggir á og náði það til meira en 200 starfsheita á 194 starfseiningum Landspítala. Alþjóðleg vottun Fair Pay Innovation Lab bætist nú við þessa íslensku vottun.