Kæra samstarfsfólk!
Á miðvikudaginn var hlotnaðist okkur á Landspítala mikilvæg og sérstaklega ánægjuleg viðurkenning. Fair Pay Innovation Lab veitti spítalanum sérstök verðlaun fyrir að vera leiðandi og öðrum til fyrirmyndar í jafnlaunamálum. Við hlutum alþjóðalega vottun: Universal Fair Pay Check, sem veitir viðurkenningu á þremur stigum og fékk Landspítali efstu viðurkenninguna sem „Universal Fair Pay Leader“. Slíka vottun fær vinnustaður þar sem leiðréttur launamunur mælist ± 1% og óleiðréttur launamunur mælist ± 10% og vinnustaðurinn beitir sér í gegnsæi bæði innanhúss sem út á við. Ég er afar stoltur af þessum árangri okkar enda eigum við að leitast við að tryggja vinnustað án aðgreiningar sem virðir mannréttindi. Það tel ég að við gerum öll á Landspítala.
Í vikunni var stórbættum tækjabúnaði og aðstöðu fagnað á sýkla- og veirufræðideild í Ármúla. Hið nýja COBAS 8800 tæki, sem nú hefur verið að fullu komið í virkni, stóreflir rannsóknargetu Landspítala og með þeim tækjabúnaði sem deildin býr nú yfir, sem og með faggildingu rannsóknarstofunnar sem fékkst í nóvember síðastliðnum, getum við sagt að sýkla- og veirufræðideildin sé rannsóknarstofa á heimsmælikvarða. Við erum afskaplega stolt af þessum mikla árangri í uppbyggingu starfseminnar en auðvitað ber þarna sérstaklega að þakka stjórnendum og starfsfólki deildarinnar sem unnið hefur þrekvirki síðasta árið. Samhliða þessu fögnuðum við í vikunni afar góðu og farsælu samstarfi Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar sem svo sannarlega reyndist dyggur bakhjarl okkar í greiningum COVID-19 sýna. Nú heldur samstarf okkar og ÍE áfram á öðrum sviðum en Landspítali sér eftirleiðis alfarið um greiningar á COVID-19 sýnum hérlendis.
Sýklalyfjaónæmi er útbreitt alþjóðlegt vandamál. Mikil notkun sýklalyfja, meðal annars í matvælaiðnaði sem og óþörf notkun of breiðvirkra sýklalyfja í mönnum, hefur greitt götu ónæmra sýkla í samfélaginu, bæði innan og utan sjúkrastofnana. Á Landspítala og í íslensku samfélagi hafa ónæmir sýklar greinst í auknum mæli, rétt eins og erlendis. Til þess að glíma við þessa þróun hefur meðal annars verið gripið til þess ráðs að stofna til sýklalyfjagæslu til að efla fræðslu, meta útbreiðslu sýklalyfjaónæmis, skoða heildarnotkun sýklalyfja og tryggja rétta notkun sýklalyfja við algengum sýkingum á spítalanum, meðal annars með klínískum leiðbeiningum fyrir íslenskar aðstæður og gagnlegri notkun smáforrita eða appa. Markmið sýklalyfjagæslu Landspítala er að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja og draga úr áhættu á myndun og dreifingu ónæmra sýkla. Við erum með ótrúlega öflugt teymi í þessu verkefni eins og greint er frá í meðfylgjandi myndskeiði.
Árið 2016 hófst starfsnám í klínískri lyfjafræði í Háskóla Íslands í samstarfi við Landspítala. Það var mikið framfaraskref og við erum stolt af framþróun námsins hjá okkur. Markmið klínískrar lyfjafræði er að tryggja hagkvæma, örugga og árangursríka notkun lyfja. Þetta er afskaplega mikilvægt í ljósi þess að sjúklingahópurinn okkar er í stöðugt meiri þörf fyrir þverfaglega aðkomu heilbrigðisstétta vegna fjölbreytts heilsuvanda. Nám í klínískri lyfjafræði er krefjandi en spennandi og er 3 ára nám sem lýkur með meistaraprófi. Lykill að velgengni þessa náms hjá okkur er samstarf Landspítala og Háskóla Íslands en ekki síður mikilvægt samstarf sem við eigum við University College, London og The Royal Pharmaceutical Society en það hefur skipt miklu við þróun námsins og viðurkenningu þess. Þessi viðbót í teymi fagfólks á Landspítala hefur reynst okkur mikið heillaskref. Sjá myndskeið.
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Leit
Loka