Ofurhetjurnar Atlas og Avion mættu á Barnaspítala Hringsins 25. febrúar 2021 með ávísun á hálfa milljón króna sem starfsmenn þar tóku við og þökkuðu fyrir
Dagur Lárusson og Úlfar Konráð Svansson eru mennirnir á bakvið grímurnar en þeir gáfu út bókina Landverðirnir: Atlas og Avion ásamt Fannari Gilbertssyni núna fyrir jól og var markmið þeirra félaga að láta hagnaðinn af bókinni renna beint til Barnaspítala Hringsins.
,,Við viljum hvetja fólk til þess að gera öðrum gott því það er það besta sem við gerum. En til þess að hvetja fólk til þess þá verðum við að gera það sjálfir og um það snýst þetta Landvarðaverkefni okkar,” sagði Dagur en þeir stefna á að tvöfalda upphæðina til Barnaspítalans með útgáfu á næstu bók sem kemur út í haust.
,,Við erum bara að rétt að byrja. Við viljum búa til verkefni sem við getum vonandi einn daginn unnið við og alltaf gefið hluta af okkar hagnaði til Barnaspítalans, það væri algjör draumur, en við byrjum allaveganna á því að gefa út næstu Landvarðabók um hana Íru og við viljum tvöfalda þessa upphæð útfrá sölu á þeirri bók,” bætti Dagur við.
Hægt er að fylgjast með ofurhetjunum á Instagram, Facebook og Tiktok undir heitinu landverdirofficial.