Kæra samstarfsfólk!
Baráttan við COVID-19 heldur áfram. Landspítali er enn á óvissustigi vegna farsóttarinnar enda tökum við á hverjum degi við nýjum sjúklingum í göngudeildina okkar og síðasta hálfa mánuðinn hafa 7 einstaklingar þurft innlögn á spítalann. Bólusetning við farsóttinni er afar mikilvægur liðsstyrkur og nærri lætur að Landspítali hafi nú bólusett þriðjung starfsmanna. Það er ánægjulegt en við bíðum þó eins og landsmenn aðrir eftir meira bóluefni. Þrátt fyrir þetta þá höldum við okkur áfram við þá forgangsröðun sem birtist í reglugerð heilbrigðisráðherra. Sterkasta vopnið er enn um sinn persónulegar sóttvarnir svo sem handþvottur, grímunotkun og fjarlægðarmörk og áríðandi er að muna að þær reglur gilda EINNIG um þá sem bólusettir hafa verið, innan og utan Landspítala.
Verkefnið „Betri vinnutími“ (myndskeið) sem á rætur að rekja til kjarasamninga 2020 snertir mikinn meirihluta starfsmanna Landspítala. Fyrir dagvinnumenn í viðkomandi stéttarfélögum tók breytingin gildi um áramótin. Breytingin tekur hins vegar gildi fyrir um 3000 vaktavinnumenn á Landspítala þann 1. maí nk. Verkefnið er gríðar viðamikið og margs að gæta við aðlögun vakta / vinnufyrirkomulags að breyttum vaktakafla kjarasamninga þannig að ekki verði röskun á okkar viðkvæmu þjónustu. Deildarstjórar hafa ásamt teymi mannauðsfólks spítalans unnið að undirbúningi.
Breytingarnar leiða til þess að vinnutími vaktavinnustarfsmanna í 100% starfi styttist að lágmarki úr 173,33 tímum á mánuði í 156 tíma. Nýr þáttur, vægi vinnustunda utan dagvinnu, getur leitt til enn frekari styttingar. Þá koma inn nýir launamyndandi hvatar og breytingar á vaktaálagi sem stuðla að dreifingu vakta og jöfnun vinnustunda. Til skoðunar kemur jafnframt hvort vaktavinnumenn í hlutastarfi vilji samhliða breytingunni auka við starfshlutfall sitt.
Sérstök tilkynning verður send í tölvupósti til vaktavinnustarfsmanna um breytingar þessar.
Þetta er líklega mesta bylting á íslenskum vinnumarkaði í 40 ár og kemur því ekki á óvart að útfærslan hefur víða reynst flókin. Ég vil því nota tækifærið og þakka ykkur öllum sem vinnið að þessu framfaramáli ykkar mikilvægu störf - við lendum þessu saman.
Árlega frá árinu 2012 höfum við gert þjónustukönnun meðal sjúklinga og nú liggur fyrir niðurstaða ársins 2020. Spurningar eru af ýmsu tagi en tilgangurinn er að fá upplýsingar um viðhorf sjúklinga til þjónustunnar og nota niðurstöðurnar til umbóta í starfseminni. Það hefur verið gleðilegt að sjá að ánægja sjúklinga eykst ár frá ári enda höfum við notað niðurstöðurnar til að bæta okkur. Sem dæmi um þetta má nefna upplifun sjúklinga af samvinnu stétta og af umhverfinu á spítalanum. Spurningarnar eru staðlaðar og við notum þær líka til að bera okkur saman við opinbera heilbrigðiskerfið í Englandi (NHS England) sem notar sama kerfi. Við erum ánægð með að vera framar nágrönnum okkar í þessu tilliti og sömuleiðis með að ná fyrstu einkunn hjá sjúklingunum okkar en fjölmörg tækifæri eru til að gera enn betur. Það ætlum við líka að gera.
Góða helgi!
Páll Matthíasson