Kæra samstarfsfólk!
I.
Í dag urðu þau gleðilegu og stórmerku tímamót að Landspítali tók á ný við 3.400 fermetra húsnæði að Eiríksgötu 5. Húsið nefnist „Eiríksstaðir“ en elstu menn muna eftir húsinu undir heitinu „Templarahöllin“. Eiríksstaðir munu hýsa fjölbreytta klíníska starfsemi á vegum Landspítala og efla þjónustu spítalans með margvíslegum hætti. Ráðgert er að komur í húsið verði, þegar það er komið í fulla virkni, tæplega 300 á dag og um 60 þúsund á ári. Þessir nýju Eiríksstaðir, er hýstu áður skrifstofur Landspítala sem fluttu snemma á síðasta ári í Skaftahlíð 24, munu meðal annars hýsa göngudeildarþjónustu fyrir gigtarsjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, erfðaráðgjöf, augnsjúkdóma, skimun og greiningu krabbameins og sérstaka brjóstamiðstöð. Á Eiríksstöðum mun gefast kærkomið tækifæri til að þróa samvinnu milli sérgreina og faghópa. Þar stendur sömuleiðis til að efla til muna fjarheilbrigðisþjónustu, sem er hluti af framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu á 21. öld. Sérstaka athygli má jafnframt vekja á að á Eiríksstöðum verður heildstæð göngudeildarþjónusta við konur með krabbamein í brjósti, allt frá skimun til eftirlits eftir meðferð, en skurðaðgerðir og geislameðferð verða áfram á öðrum stað í Landspítalaþorpinu við Hringbraut. Göngudeildarhúsið Eiríksstaðir er ómissandi hluti í hinum svonefnda húsnæðiskapli Landspítala, sem snýst um endurnýjun húsnæðis og nýbyggingar spítalans svo að hann megi standa undir nafni sem þjóðarsjúkrahús og starfa við aðstæður sem sambornar eru sjúklingum og starfsfólki í hátæknivæddum samtímanum með ríkar kröfur til gæða, öryggis og þjónustustigs.
II.
Talandi um framþróun heilbrigðisvísinda, þá vakti það sérstaka athygli mína við úthlutun Rannís-styrkja til nýrra rannsóknaverkefna fyrir árið 2021 að vísindafólk Landspítala hlaut þar háa styrki til framþróunar sinna verkefna og rannsókna. Þar má meðal annars nefna Hans Tómas Björnsson sem rannsakar kerfisbundinn útslátt utangenaþátta til að skilja hvernig truflun á utangenaerfðum veldur sjúkdómum, Viðar Örn Eðvarðsson og Runólf Pálsson sem rannsaka meinmyndun nýrnaskaða og einstaklingsmiðaða meðferð, Magnús Gottfreðsson sem rannsakar bætta greiningu samfélagslungnabólgu sem krefst innlagnar á sjúkrahús og Þórir Einarsson Long sem rannsakar einstofna mótefnahækkun og nýrnasjúkdóma. Hið frjóa vísindafólk Landspítala er ómissandi hluti af starfsemi okkar sem háskólasjúkrahúss og virkilega gaman að sjá þessa deiglu vísinda og rannsókna vaxa og dafna með öflugum stuðningi hins opinbera.
III.
Rétt er að minna á það að stöðumat spítalans, kl. 11:15 daglega, er mikilvægur hlekkur í öryggismenningu spítalans. Á farsóttartímum hefur stöðumatið flust yfir á Workplace en skort hefur á gagnvirkni á þeim miðli. Því er ætlunin að færa stöðumat á Teams í næstu viku. Það er von okkar að sá miðill henti stöðumatinu betur og ég vil hvetja fólk að taka þátt í stöðumati spítalans, þessum lykilþætti í að ná yfirsýn yfir stöðuna og helstu öryggisþætti á spítalanum á degi hverjum.
IV.
Stofnuð hefur verið Miðstöð sjúklingafræðslu á Landspítala og stýrinefnd sett á laggirnar henni til stuðnings og stefnumótunar. Fræðsla til sjúklinga á Landspítala og aðstandenda og þátttaka þeirra í meðferð verður æ mikilvægari. Kemur þar margt til, meðal annars fjölgun langvinnra sjúkdóma, styttri legutími aukin áhersla á fjarheilbrigðisþjónustu og önnur breyting á heilbrigðisþjónustu sem leggur aukna ábyrgð á sjúklinga að sinna meðferð sem áður var á höndum heilbrigðisstarfsfólks. Ofgnótt upplýsinga er aðgengileg á Netinu sem sjúklingar þurfa aðstoð við að velja og tileinka sér og síðast en ekki síst er það réttur sjúklinga að fá fræðslu svo þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir er tengjast heilsu sinni. Flestallar heilbrigðisstéttir sinna fræðslu til sjúklinga og aðstandenda í einhverjum mæli og hæfni þeirra til að sinna þessum hluta starfsins er því mikilvæg. Miðstöð um sjúklingafræðslu á Landspítala er ætlað að gegna forystu- og samræmingarhlutverki í þróun, framleiðslu og miðlun fræðsluefnis gagnvart bæði sjúklingum, aðstandendum og heilbrigðisstarfsfólki. Við væntum mikils af þessu verkefni, enda valdefling sjúklinga eitt mikilvægasta verkefni heilbrigðisþjónustu á 21. öld.
Fræðsla á vef Landspítala
Miðstöð sjúklingafræðslu á Landspítala (myndskeið)
V.
Að endingu langar mig til að vekja athygli ykkar á því að dr. Helga Sif Friðjónsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri hjá Landspítala, var meðal þeirra fjórtán Íslendinga sem forseti Íslands sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag. Helga Sif hlaut riddarakross nánar tiltekið fyrir brautryðjandastörf á vettvangi skaðaminnkunar fyrir fíkniefnaneytendur og aðra jaðarsetta hópa. Helga Sif hefur sérfræðingsleyfi í geðhjúkrun með áherslu á fíknisjúkdóma og hefur frá árinu 2009 verið faglegur bakhjarl Frú Ragnheiðar, skaðaminnkunarverkefnis Rauða Kross höfuðborgarsvæðisins, í sjálfboðavinnu. Helga Sif var hjúkrunardeildarstjóri fíknigeðdeildar geðsviðs frá 2011 til 2016 og hefur nú verið deildarstjóri göngudeildar geðþjónustu Landspítala um tæplega fjögurra ára skeið. Þessi nýjasta fálkaorðuhafi er stofnuninni stórkostlegur fengur og við gætum ekki verið stoltari.
Góða helgi!
Páll Matthíasson