Kæra samstarfsfólk!
Eins og sóttvarnalæknir segir þá erum við vonandi komin í síðasta kafla COVID-19 farsóttarinnar, nú þegar farið er að bólusetja þjóðir heims. Áskoranirnar eru þó ærnar áfram og mikilvægt að halda vöku sinni. Það sannaðist í tvígang í vikunni þegar smit greindust á hjartadeild annars vegar og blóð- og krabbameinslækningadeild hins vegar. Í fyrra tilvikinu reyndist um eldra smit að ræða sem greindist við útskrift sjúklings en í hinu síðara fannst fyrir árverkni starfsfólks virkt smit hjá sjúklingi sem lagst hafði inn deginum áður, eftir að hafa fengið þjónustu á annarri heilbrigðisstofnun. Á skipulagðan og fumlausan hátt var strax gripið til víðtæks viðbragðs og deildunum samstundis lokað fyrir nýjum innlögnum og aðrir sjúklingar og starfsfólk skimað fyrir Covid-19. Snör vinnubrögð þrautþjálfaðra starfsmanna spítalans og öflugar sýkingarvarnir þeirra fyrir og eftir þessa alvarlegu atburði skiptu sköpum. Frekari smit hafa ekki greinst en viðbrögðin voru hárrétt og viðeigandi. Landspítali sinnir verkefnum af þessu tagi allan sólarhringinn, allan ársins hring og hér gengur fólk fumlaust og yfirvegað til verka. Það hefur margoft komið í ljós í heimsfaraldri Covid-19 að samstaða starfsfólks Landspítala nær jafnan hámarki andspænis erfiðustu áskorununum. Ég hygg að sömu sögu megi segja af öðrum heilbrigðisstofnunum um víða veröld. Þetta eru ótrúlegir vinnustaðir og einstakur heiður að tilheyra þeim.
Á þessum tímum þegar bóluefni er farið að berast til landsins er mikilvægt að við sýnum yfirvegun og stillingu. Sóttvarnarlæknir hefur, að vel athuguðu máli, sett fram forgangsröðun í reglugerð. Í reglugerðinni er ekki forgangsraðað þannig að tryggt sé að tiltekin starfsemi haldi velli, svo sem innviðir á borð við raforkuver eða einstaka heilbrigðisstofnun, heldur er horft til þeirra sem eru í mestri áhættu. Að leiðarljósi eru höfð þau grunngildi að láta okkar viðkvæmustu hópa ganga fyrir og þá sérstaklega aldraða. Fólk í almannaþjónustu (sérstaklega heilbrigðisþjónustu) sem metið er í hááhættu er einnig í forgangi. Aðrir koma síðar. Þetta er skynsamleg forgangsröðun og réttlát og það er mikilvægt að við treystum mati heilbrigðisyfirvalda í þessu efni.
Ég og fulltrúar farsóttarnefndar spítalans höfum á undanförnum vikum fengið fjölmargar rökstuddar óskir um að ákveðnir hópar innan spítalans þurfi að ganga fyrir öðrum í bólusetningu. Þótt ég hafi fullan skilning á því að stjórnendur beri hag starfsfólks síns sér fyrir brjósti og vilji verja sem best þá þjónustu sem veitt er og þótt ég skilji vel að fólk óttist það að sýkjast þá verðum við öll að virða forgangsröðun sem sett hefur verið fram. Eftir því sem bóluefni berst til landsins þá verða landsmenn bólusettir og þar er fylgt þeirri forgangsröðun sem liggur fyrir. Þar gildir sama fyrir Jón og séra Jón og ég vil sérstaklega taka fram, vegna sögusagna um annað, að forstjóri og framkvæmdastjórn eða aðrir stjórnendur spítalans hafa ekki verið bólusettir fyrir COVID-19. Undantekningar frá þessu eru auðvitað þær ef fólk sinnir einnig beinum sjúklingasamskiptum í framlínu og tilheyrir þannig þegar skilgreindum forgangshópum. Við hin bíðum róleg þar til að okkur kemur, í þeirri vissu að framar okkur í röðinni er sannarlega fólk sem þarf meira á bólusetningu að halda.
Góða helgi og baráttukveðjur öll!
Páll Matthíasson