Frá farsóttanefnd:
Í dag stöndum við á tímamótum í viðbragði okkar við COVID- 19 farsóttinni; bóluefnið er komið og byrjað að bólusetja!!
Það er gleðiefni og í raun ótrúlegt að við skulum vera að byrja bólusetningu þegar rétt 10 mánuðir eru frá því fyrsta COVID-19 tilfellið greindist á Íslandi. Augljóslega er eftirspurnin mikil á heimsvísu og því miður fengum við ekki nægilega mikið af bóluefni til að bólusetja alla strax. Því þarf að forgangsraða bólusetningu starfsmanna í samræmi við reglugerð heilbrigðisráðherra. Sú vandasama og erfiða vinna er unnin af bólusetningarhópnum í samvinnu við stjórnendur og farsóttanefnd. Við vitum að allir starfsmenn Landspítala eru jafn mikilvægir og allir sem þiggja bólusetningu verða bólusettir jafnóðum og meira efni berst.
Þá er mikilvægt að hafa í huga að bólusetning breytir, að svo komnu máli, engu um þær sóttvarnaraðgerðir sem fylgja þarf á Landspítala hvað varðar sýkingavarnir, grímunotkun, handhreinsun og fjarlægðarmörk.