Jólin 2020 verða okkur öllum minnisstæð með einhverjum hætti. Um þessar mundir geisar farsótt um allan heim. Í nágrannalöndum okkar af miklum ofsa, minni hér á landi.
Um jólin koma fjölskyldur saman, sumir koma erlendis frá. Í sumum tilvikum koma þeir nú frá löndum þar sem farsóttin geisar hvað harðast. Þó að þeir fari í skimun við komu til landsins er alltaf möguleiki á að pestin geti borist inn í landið, eins og dæmin sanna. Því fleiri sem eru í jólaboðum, þótt fjöldatakmörkunum sé fylgt, þeim mun meiri er hættan á að smit berist á milli fólks.
Á Landspítala eru færri sjúklingar í einbýlum en fjölbýlum. Reynsla okkar á spítalanum síðastliðin misseri er að komist smit inn á legudeild eru auknar líkur á að fólk sem dvelur þar, oft í fjölbýlum, smitist. Aðstæður á spítalanum eru líka þannig að erfitt getur verið að tempra útbreiðslu smits milli sjúklinga.
Í ljósi þessa ákvað farsóttanefnd spítalans að heimila EKKI leyfi sjúklinga í heimahús eða á önnur mannamót um hátíðarnar. Ákvörðunin er vel ígrunduð og með öryggi og hag sjúklinga á Landspítala að leiðarljósi. Þetta gildir þó ekki um fólk sem dvelur á Landspítala og hefur fengið COVID-19.
Fyrirkomulag heimsókna á Landspítala er óbreytt frá því sem verið hefur.
Um leið og farsóttanefnd Landspítala óskar sjúklingum og ættingjum þeirra gleðilegra jóla og nýs árs er harmað að þurfa að viðhafa svona strangar ráðstafanir í sóttvörnum um hátíðarnar.
Nú er dag loks tekið að lengja og það styttist í að byrjað verði að bólusetja til að verjast kórónuveirunni. Við óskum þess heitast að þessi heimsfaraldur verði kveðinn niður sem fyrst og samfélagið komist aftur í eðlilegan farveg.
Fyrir hönd farsóttanefndar
Már Kristjánsson
formaður