Kæra samstarfsfólk!
Umræða um fjárlög tilheyrir aðventunni og í ár er engin undantekning þar á. Nú er frumvarp til fjárlaga til umfjöllunar á Alþingi og sjónir beinast þangað. Við höfum að undanförnu unnið að útfærslu rekstraráætlunar og stefnu spítalans en þetta tvennt þarf augljóslega að fara saman. Það er ljóst að talsverðar áskoranir eru fram undan í rekstrinum hjá okkur eins og víðast í ríkisrekstri. Samhliða berast þær miklu gleðifregnir að gert er ráð fyrir fjármögnun fyrir rekstur nýrra hjúkrunarrýma strax á næsta ári og er tæpast hægt að ítreka mikilvægi þessarar ráðstöfunar. Þetta skiptir rekstur spítalans miklu máli en mikilvægara er þó að þetta hefur mikil áhrif á lífsgæði þeirra sjúklinga sem lokið hafa meðferð hjá okkur og flust geta í hjúkrunarrými.
Blessunarlega eru þau fleiri aðventuverkin en útfærsla fjárlaga. Í næstu viku fer fram árleg umbótaráðstefna Landspítala og það þarf ekki að koma á óvart að umfjöllun um COVID-19 er þar mjög á dagskrá. Nú horfum við sérstaklega til lærdóms og umbóta sem dregnar hafa verið af faraldrinum fram að þessu. Það er áríðandi að líta til framtíðar með þessa reynslu í huga og hvernig við getum nýtt hana í þróun þjónustu við þennan sjúklingahóp en ekki síður hvernig lærdómar gagnast okkur í annarri þjónustu. Dagskráin er að vonum afar fjölbreytt, allt frá umfjöllun um COVID-19 göngudeildina, átröskunarteymi og Landakot til fæðingarþjónustunnar, bráðamóttökunnar, stafræns eftirlits með hjartasjúklingum og vöruþjónustu. Ég hvet ykkur eindregið til að fylgjast með en ráðstefnan verður í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum Landspítala, Facebook og Workplace, hinn 17. desember kl. 13:30.
Jafnframt langar mig til að minnast á að árleg aðventustund fyrir syrgjendur verður sunnudaginn 13. desember. Vegna aðstæðna í samfélaginu verður hún send út í Sjónvarpinu. Landspítali, Sorgarmiðstöð og Þjóðkirkjan standa fyrir aðventustundinni sem verður sjónvarpað frá Grafarvogskirkju kl. 17:00. Um árabil hafa sorgarsamtök, Landspítali og Þjóðkirkjan boðið þeim sem hafa nýlega misst ástvin til samkomu á aðventunni. Þetta hefur verið stund kærleika og huggunar fyrir syrgjendur í aðdraganda jóla. Nú er ekki í boði að safnast saman og því var sú leið valin að senda hana út á RÚV. Fjölskyldur geta tekið þátt í stundinni með því að kveikja á kerti í minningu látinna ástvina og landsmenn eru hvattir til að sýna syrgjendum samhug með því að kveikja á kerti heima í stofu eða úti fyrir.
Þetta er sannarlega öðru vísi aðventa. Á Landspítala höfum við eins og aðrar stofnanir og fyrirtæki þurft að finna nýjar leiðir til að gera okkur dagamun í svartasta skammdeginu. Starfsmannafélag Landspítala og Landspítali standa til dæmis fyrir stafrænni „Jólagleði Landspítala“ á aðventunni 2020. Um er að ræða þétta dagskrá af tónleikum, upplestri, gríni og öðrum viðburðum, alls 15 talsins. Gleðin verður við völd á Fjölskyldubingói Spilavina í kvöld kl. 20:00 og í gær hélt Svavar Knútur tónleika fyrir okkur. Viðburðunum í Jólagleði Landspítala er streymt í beinni útsendingu á Netinu og flestir eru þeir aðgengilegir eftir á í upptöku. Ég hvet starfsfólk til að fylgjast náið með þessum viðburðum á Workplace. Sjálfur ætla ég að reyna mæta sterkur til leiks á bingóinu í kvöld!
Góða helgi!
Páll Matthíasson