British Medical Journal tímaritið birtir 2. desember 2020 grein um rannsókn nýdoktorsins og læknisins Elíasar Eyþórssonar og samstarfsmanna á Landspítala sem lýsir tíðni og þróun einkenna meðal fólks sem greindist með Covid-19 í fyrstu bylgju sjúkdómsins á Íslandi. Rannsóknina vann Elías undir handleiðslu prófessoranna Runólfs Pálssonar og Martins Inga Sigurðssonar.
Til þessa hafa flestar rannsóknir á einkennum Covid-19 byggst á upplýsingum um einstaklinga sem þarfnast hafa innlagnar á sjúkrahús. Lengi vel voru þeir sem ekki þurftu sjúkrahúsinnlögn ýmist ekki greindir með sjúkdóminn eða voru án þjónustu heilbrigðisstarfsfólks meðan á veikindunum stóð. Þá hafa þær fáu rannsóknir sem kannað hafa einkenni allra einstaklinga sem greinst hafa með Covid-19 nær undantekningarlaust stuðst einvörðungu við spurningalista sem lagður var fyrir smitaða einstaklinga við greiningu. Afleiðingin er sú að birtingarmynd alvarlegra Covid-veikinda hefur verið gerð ágæt skil en upplýsingar skortir um einkenni annarra sem greinast með Covid-19. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að ákvörðun um framkvæmd greiningarprófs vegna gruns um Covid-19 byggist gjarnan á vel skilgreindum einkennum þannig að ef einkennamynstrið er frábrugðið hjá einstaklingum með væga sjúkdómsmynd er hætt við að ekki þyki ástæða til sýnatöku.
Rannsókn Elíasar og félaga byggði á gögnum sem var safnað á Covid-göngudeild Landspítala. Allir sem greindust með COVID-19 (jákvætt PCR-próf fyrir SARS-CoV-2) voru skráðir í símaþjónustu deildarinnar sem fól í sér tíð símtöl hjúkrunarfræðinga og lækna þar sem lagt var mat á líðan fólks og ráðgjöf veitt. Jafnframt var í hverju símtali spurt hvort einhver af 19 skilgreindum einkennum væru til staðar og mat lagt á alvarleika veikindanna. Svör við þessum spurningum voru skráð kerfisbundið á sérstakt eyðublað sem var hannað fyrir þjónustu Covid-göngudeildarinnar og var skráningin uppfærð eftir hvert símtal. Rannsóknin náði til allra 1.797 einstaklinga sem greindust með Covid-19 frá 28. febrúar til 30. apríl 2020 og var 1.564 sem greindust eftir að skráningarblaðið var tekið í notkun gefinn sérstakur gaumur.
Niðurstöður rannsókninnar reyndust áhugaverðar. Algengustu einkenni Covid-19 voru slappleiki (75%), höfuðverkur (73%) og hósti (73%). Einungis 48% fengu hita og 58% voru með bragðskynstruflun og 57% lyktarskynstruflun. Öll einkenni voru algengust í upphafi veikinda fyrir utan bragð- og lyktarskynstruflun sem var örlítið algengari á áttunda degi eftir að einkenni komu fram. Þótt oft sé talað um Covid-19 sem öndunarfærasjúkdóm er athyglisvert að 48% höfðu einkenni frá meltingarfærum. Rannsóknin sýndi einnig að 22% greindra einstaklinga uppfylltu ekki einkennaskilmerki Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) fyrir greiningarpróf og 14% uppfylltu ekki skilmerki Sóttvarnarmiðstöðar Bandaríkjanna (CDC). Niðurstöðurnar benda því til þess að allt að 24% einstaklinga sem greindust með Covid-19 hefðu ekki greinst með sjúkdóminn eða greiningu hefði seinkað ef einungis þeir sem uppfylltu ofangreind skilmerki hefðu fengið að fara í sýnatöku.
Rannsóknin bætir við mikilvægri þekkingu um þróun einkenna hjá einstaklingum með Covid-19. Líklegt þykir að fyrri rannsóknir hafi ofmetið tíðni einkenna sem eru algeng hjá alvarlega veiku fólki. Jafnframt sýnir rannsóknin að einkennamynstur er mjög breytilegt hjá þeim sem greinast með Covid-19 og að kröfur um að einstaklingar þurfi að hafa tiltekin einkenni til að fá að gangast undir greiningarpróf munu óhjákvæmilega leiða til vangreiningar.
Clinical spectrum of coronavirus disease 2019 in Iceland: population based cohort study