Nýlega birtist grein í tímaritinu Kidney International sem fjallar um rannsókn doktorsnemans Arnars Jans Jónssonar læknis og samstarfsmanna um algengi langvinns nýrnasjúkdóms á Íslandi. Rannsóknina vann Arnar undir handleiðslu Ólafs Skúla Indriðasonar nýrnalæknis og Runólfs Pálssonar, nýrnalæknis og prófessors.
Langvinnur nýrnasjúkdómur er samheiti yfir langvinna nýrnasjúkdóma af margvíslegum toga og einkennist af skerðingu á nýrnastarfsemi eða öðrum teiknum um nýrnaskemmdir sem varað hafa í 3 mánuði eða lengur. Við mat á nýrnastarfsemi er yfirleitt miðað við svokallaðan gaukulsíunarhraða nýrna sem hægt er að reikna út frá kreatíníni í blóði. Langvinnur nýrnasjúkdómur getur leitt til lokastigsnýrnabilunar sem hefur í för með sér skert lífsgæði og lífslíkur til viðbótar við þörf fyrir sértæka meðferð sem bæði er íþyngjandi fyrir einstaklinginn og kostnaðarsöm fyrir samfélagið. Einnig hefur langvinnur nýrnasjúkdómur í för með sér aukna hættu á hjarta- og æðasjúkdómum sem er á margan hátt stærra vandamál en framrás yfir í nýrnabilun.
Rannsóknir á faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms um allan heim hafa gefið til kynna að heildaralgengi sé á bilinu 10-16% og hækki með vaxandi aldri. Þó hefur verið bent á að vafasamt sé að greina langvinnan nýrnasjúkdóm hjá eldra fólki með væga skerðingu á nýrnastarfsemi og engin önnur teikn um nýrnaskemmdir. Starfsemin hnignar með hækkandi aldri og því eins líklegt að um eðlilegar aldurstengdar breytingar sé að ræða. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að fæstar þessara rannsókna hafa staðfest að skerðing á nýrnastarfsemi hafi varað í 3 mánuði eða lengur og hafa höfundar bent á að algengi gæti af þeim sökum verið ofmetið.
Rannsókn Arnars og félaga náði yfir árin 2008 til 2016 og var safnað upplýsingum um allar kreatínínmælingar í blóði, prótínmælingar í þvagi og sjúkdómsgreiningar allra einstaklinga 18 ára og eldri á Íslandi. Þessi gögn voru síðan notuð til að reikna hversu margir uppfylltu skilyrði langvinns nýrnasjúkdóms og voru með viðvarandi skerðingu á nýrnastarfsemi í 3 mánuði eða lengur. Niðurstöðurnar byggja á rúmlega 2 milljónum kreatínínmælinga hjá rúmlega 218.000 einstaklingum og sýna að aldursstaðlað algengi langvinns nýrnasjúkdóms á Íslandi er tæplega 6%, sem er um helmingi lægra en flestar eldri rannsóknir hafa sýnt. Á hinn bóginn var algengið rúmlega 12% ef ekki var skilyrði að skerðing á nýrnastarfsemi hafi varað að minnsta kosti 3 mánuði. Enn fremur sýndi rannsóknin að þegar tekið var sérstakt tillit til aldurstengdra breytinga á nýrnastarfsemi reyndist algengið vera enn lægra eða 3,6% en þetta er fyrsta rannsóknin sem metur algengi langvinns nýrnasjúkdóms með þessum hætti.
Óhætt er að segja að rannsóknin marki tímamót varðandi þekkingu á faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms því þótt einhver munur sé á samsetningu íslensks samfélags og annarra þjóða með tilliti til áhættuþátta þessa kvilla þá virðist skipta höfuðmáli að staðfesta að um viðvarandi skerðingu á nýrnastarfsemi sé að ræða. Líklegt þykir að fyrri rannsóknir hafi ofmetið algengi langvinns nýrnasjúkdóms og að skilgreining sem grundvallast á gaukulsíunarhraða verði að taka tillit til aldurs.