Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og Reykjavíkurborg veita Landspítala loftslagsviðurkenningu 2020. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Páli Matthíassyni forstjóra verðlaunin til Landspítala 27. nóvember 2020.
Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því sem vel er gert í loftslagsmálum og vera hvatning til annarra. Einkum er horft til árangurs í heildarlosun gróðuhúsalofttegunda.
Rökstuðningur vegna vals viðurkenningarhafa Festu og Reykjavíkurborgar 2020
Loftslagsviðurkenningin er veitt árlega einu fyrirtæki eða stofnun fyrir eftirtektarverðan árangur í loftslagsmálum. Landspítali setti sér metnaðarfull loftslagsmarkmið 2016 um 40% samdrátt í kolefnisspori fyrir lok 2020 og sem bráðabirgðatölur sýna að muni nást. Frá 2015 hefur verið dregið úr losun um 1.900 tonn CO2-ígilda sem jafngildir ársakstri hátt í 800 bíla.
Dæmi um aðgerðir eru:
• Glaðloftseyðingarbúnaður dró saman losun 20%.
• Hætt notkun á olíukatli sem dró saman losun um 5%.
• Átak um bætta aðstöðu fyrir vistvænar samgöngur m.a. hjólreiðar; öruggir hjólabogar, aðgangsstýrð hjólaskýli og búningsaðstaða.
• Átaksverkefni með Strætó sem margfaldaði reglulega notendur Strætó um 400%. Fleiri með virk árskort og af þeim notuðu 81% strætó daglega til og frá vinnu, stór hluti einnig utan vinnu.
• Frumkvæði og þátttaka í ýmsum deiliverkefnum á sviði samgangna.
• Hreinorkubílar bætast í flotann.
• Flokkun úrgangs og verkefni til að draga úr sóun.
• Áhersla á miðlun árangurs bæði innan spítala og utan í gegnum samfélags- og vefmiðlum og með fréttum í formi myndskeiða sem fjölmörg snúa að loftslagsmálum.
Carbfix, sem Festa og Reykjavíkurborg veittu einnig, fékk nýsköpunarviðurkenningu 2020 fyrir að breyta gasi í grjót. Carbfix fargar koldíoxíði úr útblæstri orku- og iðjuvera sem fangað er úr andrúmslofti og bindur það varanlega í bergi með öruggum og hagkvæmum hætti. Nú þegar hafa þau dælt niður um 70 þúsund tonnum CO2.
Vefsíða umhverfismála á Landspítala
Ljósmynd: Sigurjón Ragnar