Af fréttum síðasta sólarhrings má draga þá ályktun að ósætti sé milli Landspítala og Embættis landlæknis. Nánar tiltekið að ágreiningur sé um þann farveg sem athugun á hópsmiti á Landakoti er í. Það er fjarri sanni og enginn fótur fyrir slíku. Landspítali og Embætti landlæknis hafa þvert á móti átt náið samstarf í heimsfaraldrinum sem hefur í einu og öllu einkennst af gagnkvæmri virðingu og sameiginlegum skilningi á því umfangsmikla verkefni sem blasir við vegna COVID-19.
Landspítali starfar nú á neyðarstigi. Vangaveltur um hugsanlega framvindu á athugun á því hópsmiti sem varð á Landakoti eru ótímabærar og mega ekki tefja það vandasama verkefni að vinna úr þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp. Landspítali skoðar hópsýkinguna á Landakoti með smitrakningu og nýtur í því verkefni fulltingis smitrakningarteymis almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. Það er af niðurstöðu þeirrar vinnu sem lærdómur verður dreginn. Upplýsingamiðlun um þann lærdóm verður fumlaus þegar þar að kemur.
Íslenska heilbrigðiskerfið er undir gríðarlegu álagi við fordæmalausar aðstæður í miðjum heimsfaraldri. Mikilvægt er að mannauðnum þar sé skapaður nauðsynlegur vinnufriður og veitt sú virðing sem hann á skilið. Þolinmæði og þrautseigja eru lykilatriði þegar mörk hins mögulega eru þanin til hins ítrasta. Við þetta og margt fleira fást Landspítali og Embætti landlæknis jafnóðum allan sólarhringinn, af þolgæði og í einbeittum og samstíga takti.
Embætti landlæknis og Landspítali