Frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala:
Landspítali er á hættustigi vegna faraldurs COViD-19. Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd nú þrisvar í viku en oftar ef þörf er á. Allar ákvarðanir vegna sóttvarna og takmarkana þeim tengdar eru teknar á þeim miðlæga vettvangi og eru starfsmenn og stjórnendur hvattir til að kynna sér nýjustu ákvarðanir á degi hverjum á innri upplýsingavef spítalans.
Tilkynningar og áréttingar dagsins
1. Smit á Landakoti
Á öldrunardeildum á Landakoti hefur komið upp smit meðal sjúklinga og starfsmanna. Hefðbundið ferli rakningar, skimunar, sóttkvía og eftir atvikum einangrunar hófst í gærkvöldi. Sjúklingar og starfsmenn hafa verið skimaðir og tvær deildar settar í sóttkví. Ekki er gert ráð fyrir heimsóknargestum á Landakot meðan unnið er úr málinu.
2. Aflétting sóttkvíar í geðdeildarhúsi við Hringbraut
Fíknigeðdeild hefur verið opnuð aftur eftir viðbragð við smiti sem þar kom upp. Vel gekk að komast fyrir smitið.
3. Á Landspítala eru nú:
19 sjúklingar inniliggjandi vegna COVID19 – 76 alls frá upphafi þriðju bylgju faraldursins.
- Þar af eru nú 4 á gjörgæslu og 2 þeirra í öndunarvél
1 sjúklingur hefur látist á Landspítala í þriðju bylgju faraldursins
1.087 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19 göngudeildar, þar af 175 börn
152 starfsmenn eru í sóttkví A
21 starfsmaður er í einangrun