Frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala:
Landspítali er á hættustigi vegna faraldurs COViD-19. Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega. Allar ákvarðanir vegna sóttvarna og takmarkana þeim tengdar eru teknar á þeim miðlæga vettvangi og eru starfsmenn og stjórnendur hvattir til að kynna sér nýjustu ákvarðanir á degi hverjum á innri upplýsingavefjum spítalans.
Tilkynningar og áréttingar dagsins
1. Um komur á bráðamóttökur
Landspítali beinir því til fólks að leita ekki á bráðamóttöku með einkenni sem kunna að benda til COVID-19 heldur hafa samband við sína heilsugæslustöð símleiðis eða í gegnum Heilsuveru.
2. Um lokun skurðstofa á Landspítala
Gert er ráð fyrir að næstkomandi mánudag verði fimmtu skurðstofunni í Fossvogi lokað og dragi þar með enn úr valkvæðum aðgerðum. Verða þá 8 af 19 skurðstofum opnar. Áfram verð sinnt bráðatilvikum og lífsbjargandi aðgerðir framkvæmdar.
3. Afturköllun ákvörðunnar:
Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd AFTURKALLA neðangreinda ákvörðun frá því í gær, 7. október. Ekki reynist unnt að koma henni í framkvæmd eins og nú háttar:
Í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis verður starfsfólk að takmarka störf sín við einn vinnustað. Starfsfólk getur því ekki sinnt störfum á Landspítala og á öðrum stofnunum, s.s. hjúkrunarheimili, heimahjúkrun, sambýli eða öðrum sambærilegum stofnunum. Sama gildir um nema í klínísku námi á Landspítala er starfa á öðrum stofnunum, sbr. hér að framan. Áfram er heimilt að sinna störfum/námi á fleiri en einni vinnustöð innan Landspítala enda sé öllum sóttvarnaráðstöfunum fylgt.
Afar áríðandi er að starfsfólk sé sérstaklega vakandi fyrir mögulegum einkennum um COVID-19 og mæti ekki til vinnu ef grunur er um slíkt.
Áfram er sérstök áhersla á ítrustu smitvarnir á spítalanum, handþvottur, handsprittun, sprittun snertiflata, forðast hópamyndun, grímuskylda og 2 metra regla.
4. Um starfsemi dag- og göngudeilda Landspítala
- Mælst er til að reynt verði að sinna sem flestum með síma eða rafrænum hætti. Ef nauðsynlegt er að sjúklingar komi á göngudeild þarf að gæta að eftirfarandi:
Hafa lengra bil milli bókana
Fara yfir skimspurningar vegna COVID-19 og leggja áherslu á að þeir sem eru í sóttkví/einangrun eða með einkenni mæti ekki. - Sjúklingar bíði utan Landspítala, t.d í bíl, og þeir séu kallaðir inn í bygginguna þegar þeirra tími nálgast til að hindra hópamyndun á biðstofum.
- Fyrir alla sjúklinga sem koma inn í bygginguna þarf að gæta mjög vel að tveggja metra reglunni, handhreinsun og notkun maska er algjört skilyrði.
- Sjúklingar mæti einir sé þess kostur, fylgdarmaður ef það er nauðsynlegt
5. Á Landspítala eru nú:
23 sjúklingar inniliggjandi vegna Covid 19 – 35 frá upphafi þriðju bylgju faraldursins
- Þar af 3 á gjörgæslu og allir í öndunarvél
858 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19 göngudeildar
72 starfsmenn eru í sóttkví A
37 starfsmenn eru í einangrun