Viðar Örn Eðvarðsson, barnalæknir, hlaut verðlaun Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands 2020 sem afhent voru á Vísindum að hausti, árlegri uppskeruhátíð vísinda á Landspítala, þann 7. október 2020. Verðlaunin nema tveimur milljónum króna. Verðlaunin hlaut Viðar á grundvelli verkefnisins: Þættir sem stuðla að steinamyndun og nýrnasjúkdómi hjá sjúklingum með APRT-skort og 2,8-díhydroxýadenínmigu
Viðar Örn Eðvarðsson er sérfræðingur í barnalækningum og nýrnalækningum barna. Hann er umsjónarlæknir nýrnalækninga barna á Barnaspítala Hringsins á Landspítala og prófessor í barnalæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Viðar lauk embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands vorið 1987. Hann lagði stund á sérfræðinám í barnalækningum við Medical College of Georgia, í Augusta í Georgíu, Bandaríkunum, og í nýrnalækningum barna við St. Christopher’s Hospital for Children og Temple Háskóla í Philadelphia í Bandaríkjunum. Viðar var ráðinn dósent við læknadeild Háskóla Íslands árið 2013 og hlaut framgang í starf prófessors í barnalæknisfræði við sama skóla árið 2020.
Viðar og Runólfur Pálsson, sérfræðingur í lyflækningum og nýrnalækningum, forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala og prófessor í lyflæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands , stofnuðu árið 2009 ásamt leiðandi vísindamönnum í Bandaríkjunum samstarfshópinn The Rare Kidney Stone Consortium (www.rarekidneystones.org/) með það að markmiði að rannsaka sjaldgæfar orsakir nýrnasteina og kristallamiðlaðra nýrnaskemmda (kristallanýrnameins). Meðal þessara kvilla er adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT)-skortur sem erfist með víkjandi máta og veldur bæði nýrnasteinum og langvinnum nýrnasjúkdómi sem leiðir til nýrnabilunar ef ekki er brugðist við með viðeigandi meðferð í tæka tíð. APRT-skortur er óvenju algengur meðal Íslendinga en 35 einstaklingar hafa greinst með sjúkdóminn hér á landi. Rannsóknarhópurinn á Landspítala hefur stofnað alþjóðlega miðstöð fyrir rannsóknir á APRT-skorti sem er nú leiðandi á heimsvísu.
Á undanförnum áratug hefur umfangsmiklum gögnum og lífsýnum verið safnað frá liðlega 60 einstaklingum með APRT-skort frá ýmsum löndum og er þetta gagna- og lífsýnasafn það stærsta sinnar tegundar. Rannsóknarhópurinn hefur enn fremur þróað aðferðir til greiningar á APRT-skorti sem jafnframt koma að notum við eftirlit með lyfjameðferð. Þessar aðferðir munu án efa efla klíníska þjónustu og rannsóknir enn frekar á komandi árum. Vinna hópsins hefur þegar leitt til birtingar fjölda greina í erlendum ritrýndum tímaritum á sviði lífvísinda, einnar doktorsvarnar og útskriftar fjögurra meistaranema. Sérstök áhersla verður áfram lögð á þjálfun ungra vísindamanna.
Verðlaunastyrkur Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands mun nýtast til áframhaldandi uppbyggingar gagna- og lífsýnasafns APRT-skorts sem skapar sterkan grundvöll fyrir frekari vísindarannsóknir á þessum sjúkdómi. Í undirbúningi eru rannsóknir á meinmyndun kristallamiðlaðra nýrnaskemmda hjá sjúklingum með APRT-skort. Markmið rannsóknanna er að finna fleiri meðferðarúrræði við APRT-skorti en völ er á í dag, m.a. lyfjameðferð sem stöðvar eða hamlar framrás kristallanýrnameins.
Auk Viðars og Runólfs eru meðlimir rannsóknarhópsins eftirtaldir: Ólafur Skúli Indriðason, sérfræðingur í lyflækningum og nýrnalækningum á Landspítala; Margrét Þorsteinsdóttir, prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands; Jón Jóhannes Jónsson, yfirlæknir erfða- og sameindalæknisfræðideildar á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands; Snorri Þór Sigurðsson, prófessor í efnafræði við Háskóla Íslands; Inger M. Sch. Ágústsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Barnaspítala Hringsins, Landspítala; Hrafnhildur Linnet Runólfsdóttir, sérnámslæknir í lyflækningum á Landspítala sem nýlega varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands, og Unnur Þorsteinsdóttir, líffræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands.
Helstu samstarfsaðilar: Gunnar Zoëga, yfirlæknir augnlækninga á Landspítala; Leifur Franzson, sérfræðingur við erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala; Patrick Sulem, læknir og yfirmaður klínískrar mannerfðafræði hjá Íslenskri erfðagreiningu; John Lieske, nýrnalæknir og prófessor við Mayo Clinic College of Medicine, Rochester, Minnesota í Bandaríkjunum; Dawn S. Milliner, nýrnalæknir og prófessor við Mayo Clinic College of Medicine, Rochester, Minnesota í Bandaríkjunum; David S. Goldfarb, nýrnalæknir og prófessor við New York University í Bandaríkjunum.