Kæra samstarfsfólk!
Þriðja bylgja Covid-19 hefur haft umtalsverð áhrif hjá okkur á Landspítala. Nú eru 35 starfsmenn í einangrun og 177 í sóttkví. Óhjákvæmilega hefur þetta áhrif á starfsemina og hefur dagdeild skurðlækninga (A5) og göngudeild skurðækninga (B3) í Fossvogi verið lokað vegna smita og sóttkvíar starfsfólks. Ég óska auðvitað fyrst og síðast okkar góða samstarfsfólki sem nú glímir sjálft við veiruna góðs og skjóts bata. Því miður hefur þetta umtalsverð áhrif á sjúklinga okkar líka þar sem fresta verður vissum aðgerðum sem beðið geta, þótt bráðaaðgerðum sé að sjálfsögðu sinnt og öryggi sjúklinga þar með tryggt.
Þetta er hins vegar afleit staða og minnir okkur öll á að viðhafa ítrustu smitvarnir hér í vinnunni en einnig og ekki síður utan spítalans. Að starfa í heilbrigðiskerfinu við þessar aðstæður gerir auknar kröfur til okkar almennt. Við höfum auðvitað staðið undir þeim og rúmlega það. Hvað smitvarnir varðar er ljóst að árangur okkar hefur verið góður, eins og mótefnamælingar meðal starfsfólks í sumar sýndu. Aðeins 0,25% reyndust hafa mótefni fyrir Covid-19 þó að þeir sem til rannsóknarinnar völdust hafi einmitt verið í hópi þeirra sem önnuðust Covid sjúklinga. Það er eftirtektarverður árangur. Öll gögn benda til þess að rétt notkun hlífðarbúnaðar sé örugg vörn gegn veirunni og almenn smitgát sömuleiðis. Það er því afskaplega áríðandi núna að við öll viðhöfum ítrustu smitvarnir við vinnuna okkar, í samskiptum við vinnufélaga og eins og kostur er í einkalífinu og þess bið ég ykkur lengstra orða.
Frá því Covid faraldurinn reið yfir í vor höfum við spurt starfsfólk Landspítala í reglubundnum örkönnunum um áhrif faraldursins á starf þeirra og líðan. Í örkönnun sem gerð var hjá tilviljunarúrtaki starfsmanna nú í september kom í ljós að yfir 80% starfsmanna segja Covid-19 faraldurinn hafa raskað þeirra hefðbundna starfi. Flestir eru sammála um að breytingarnar hafi verið bæði jákvæðar og neikvæðar. Það sem fólk telur jákvætt er að tækniþekkingu hefur fleygt fram, nýjar rafrænar lausnir hafa verið teknar upp, ánægja ríkir með skipulag heimavinnu og fjarfundi, meiri vitund er um sýkingavarnir, verkferlar hafa verið einfaldaðir og samvinna aukist. Það sem talið er neikvætt er að þjónusta hefur verið skert á sumum stöðum, álag er mikið, erfitt er að vera í búningi og með grímu, einangrun sjúklinga hefur aukist og umönnun því umfangsmeiri auk þess sem samskipti við samstarfsfólk eru ekki eins náin. Einnig kom fram í þessari könnun að heilsuvenjur starfsfólks (þ.e. venjur um svefn, næringu og hreyfingu) eru heldur lakari nú en í venjulegu ári. Enn fremur telja 30% starfsfólks að líðan þeirra sé verri núna en almennt í byrjun hausts og 12% af þeim telja sig þurfa á aðstoð að halda á næstunni vegna þess. Um fjórðungur okkar starfsmanna hefur enn fremur afkomuáhyggjur fyrir hönd fjölskyldu sinnar vegna farsóttaráhrifa. Þetta er brýning til okkar um að standa saman og hlúa hvert að öðru. Ég vil hvetja starfsfólk til að nýta sér úrræði s.s. stuðnings- og ráðgjafarteymið, vefsvæðin Saman gegnum kófið og Vellíðan í vaktavinnu, til að takast á við þessa líðan og vona að við getum sem allra fyrst komið aftur á þeim eðlilegu samskiptum sem gera vinnustaðinn svo nærandi og skemmtilegan.
Góða helgi!
Páll Matthíasson