Frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala:
Landspítali hefur nú verið færður af óvissustigi á hættustig vegna faraldurs COVID-19. Viðbragðsáætlun Landspítala vegna farsótta hefur því verið virkjuð og funda viðbragðsstjórn og farsóttanefnd daglega. Allar ákvarðanir vegna sóttvarna og takmarkana þeim tengdar eru teknar á þeim miðlæga vettvangi og er starfsfólk hvatt til að kynna sér nýjustu ákvarðanir á degi hverjum á innri vef og öðrum upplýsingamiðlum spítalans.
Algjör grímuskylda
Meginmarkmið allra ráðstafana sem gerðar hafa verið frá upphafi faraldurs hefur verið að fá ekki smit óvænt inn á spítalann og verja starfsfólk og sjúklinga fyrir smiti með viðeigandi hlífðarbúnaði. Aðgerðirnar hafa falist í almennum sóttvörnum til að rjúfa smitleiðir og sérhæfðari aðgerðum með notkun viðeigandi hlífðarbúnaðar og fræðslu um notkun hans. Nú hefur bæst við sú þekking að grímunotkun ásamt handhreinsun minnkar líkur á smiti umtalsvert. Því er núna algjör grímuskylda á Landspítala og ef hún er uppfyllt þá minnkar það verulega líkur á að starfsmaður lendi í sóttkví þrátt fyrir útsetningu vegna nándar við smitaðan einstakling.
Viðbragð gegn smitum
Þegar upp kemur smit á starfseiningu þá er það hlutverk rakningarteymis spítalans að rekja smitið og setja útsetta í sóttkví. Þá eru vegin og metin atriði eins og grímunotkun og fjarlægðarmörk. Þá hefur einnig verið gripið til þess ráðs að skima allt starfsfólk eininga þar sem smit kemur upp.
Aðferðir þróast með þekkingu
Við erum öll að læra á þennan faraldur og við breytum aðferðum og nálgun á viðfangsefnið eftir því sem þekking okkar eykst og gögn berast sem styðja tiltekna nálgun. Rakningarteymið fer eftir þeim viðmiðum sem í gildi eru hverju sinni. Því er ekki hægt að bera saman þá nálgun sem notuð var í fyrstu bylgju og þá sem notuð er núna.
Aðgerðum forgangsraðað
Ljóst er að einangrun og sóttkví starfsmanna vegna Covid-19 hefur haft áhrif á starfsemi í skurðlækningaþjónustu og þannig var 22 aðgerðum frestað vegna þessa í síðustu viku. Aðgerðum er forgangsraðað þannig að allar brýnar aðgerðir eru framkvæmdar, s.s. krabbameinsaðgerðir og aðrar sem ekki þola bið.
Biðlistaaðgerðir gætu frestast
Eins og kunnugt er tekur spítalinn þátt í biðlistaátaki vegna liðskiptaaðgerða en vegna þeirrar stöðu sem upp er komin er hugsanlegt að fresta verði þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar voru um komandi helgi. Endanleg ákvörðun um þetta mun liggja fyrir á fimmtudag. Sjúklingar sem bíða þessara aðgerða verða upplýstir um gang mála um leið og niðurstaða liggur fyrir.
Aðrar tilkynningar
1. Grímuskylda gildir nú fyrir allt starfsfólk og gesti spítalans. Einungis er heimilt að bera ekki grímu þegar matast er en þá skal viðhöfð 2 metra fjarlægð. Á spítalanum er notkun taugríma ekki heimil, heldur ber að notast við skurðstofugrímur.
2. Vakin er athygli á því að ekki hafa verið gerðar neinar breytingar á fyrirkomulagi klínísks verknáms á Landspítala. Grímuskylda er hjá nemendum eins og öllu starfsfólki. Varðandi námskeiðahald þá er hvatt til þess að streyma allri kennslu/fræðslu eins og mögulegt er. Ef nauðsynlegt er að hafa fólk saman í rými þá þarf að gæta að fjarlægðamörkum og grímunotkun. Öll vafamál skal bera undir farsóttanefnd.
3. Starfsfólk er eindregið hvatt til að kynna sér Spurt og svarað fyrir starfsfólk Landspítala um kórónuveiruna COVID-19 sem er á upplýsingasíðunni um kórónaveiruna á innri vef. Stjórnendur eru minntir á að kynna sér Spurt og svarað fyrir stjórnendur vegna COVID-19 tengdra breytinga er varða starfsfólk, sem er í gæðahandbók Landspítala.
4. Tölulegar upplýsingar:
Á Landspítala eru nú:
- 2 sjúklingar inniliggjandi vegna Covid 19
- 282 sjúklingar í eftirliti Covid-19 göngudeildar
- 200 starfsmenn í sóttkví
- 22 starfsmenn í einangrun