Sjúkraþjálfarar um allan heim fögnuðu alþjóðlegum degi sjúkraþjálfunar 8. september 2020 með óvenjulegum hætti, hér á landi líka. Með þessum degi vilja sjúkraþjálfarar draga athygli að framlagi þeirra til heilsu og vellíðanar einstaklinga og þjóða.
Í ár hafði heimssamband sjúkraþjálfara, World Physiotherapy, tileinkað daginn COVID-19. Lögð var áhersla á mikilvægi sjúkraþjálfunar í meðferð sjúkdómsins bæði meðan á honum stendur og endurhæfingu eftir hann. Einnig var lögð áhersla á mikilvægi þess að sjúkraþjálfarar, sem og aðrar heilbrigðisstéttir, hafi í öllum tilfellum aðgang að öruggum og viðurkenndum hlífðarbúnaði í starfi sínu.
Undanfarin ár hefur Fagráð sjúkraþjálfunar á Landspítala haldið málþing í tilefni dagsins en í ár var deginum fagnað á annan hátt. Föstudaginn 4. september hélt Ingrid Kuhlmann frá Þekkingarsetri rafrænan fyrirlestur fyrir starfsfólk sjúkraþjálfunar um hvernig hlúð er að andlegri vellíðan á óvissutímum.