Frá farsóttanefnd vegna nálægðartakmarkana, grímunotkunar, sóttkvíar og leyfis sjúklinga:
Á miðnætti 7. september 2020 tók gildi reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar en hún gildir til 27. september kl. 23:59.
Í reglugerðinni er fjöldatakmörkun færð úr 100 manns í 200, tveggja metra regla er færð í eins meters reglu og sérstaklega kveðið á um grímunotkun í starfsemi sem eðlis síns vegna krefst meiri nálægðar en sem svarar einum metra (s.s. heilbrigðisþjónusta).
Farsóttanefnd og sýkingavarnadeild hafa í ljósi þessara breytinga sett eftirfarandi reglur um nálægðartakmörkun og grímunotkun á Landspítala:
1. Inniliggjandi sjúklingar þurfa ekki að bera grímu nema þeir fari á aðrar deildir til rannsókna og/eða meðferða. Ef þeir geta ekki borið grímu þarf starfsmaður sem sinnir þeim að gera það.
2. Sjúklingar sem koma til rannsókna og/eða meðferðar á dag-, göngu- og rannsóknardeildum þurfa að bera grímu meðan á heimsókn stendur. Starfsmenn sem sinna þessum einstaklingum þurfa ekki að bera grímu nema nánd sé innan við einn meter.
3. Heimsóknargestir og aðrir utanaðkomandi sem koma inn á spítalann s.s. vegna vöruafhendinga, viðgerða, funda o.s.frv., þurfa að bera grímu meðan á heimsókn stendur.
4. Starfsmenn og nemendur eiga að bera grímu við beina umönnun inniliggjandi sjúklinga. Ekki er nauðsynlegt að bera grímu í sameiginlegum rýmum nema þar sem ekki er unnt að halda eins meters fjarlægð.
5. Engar breytingar eru gerðar á framkvæmd við sóttkví starfsmanna B-2 og C né sóttkví sjúklinga sem hafa komið erlendis frá á síðustu 14 dögum.
LEYFI: Deildum er heimilt að gefa sjúklingum leyfi til að fara af spítalanum í tilgreindan tíma. Við þær aðstæður þarf að leggja ríka áherslu á að þeir sem sjúklingur kann að umgangast í leyfi séu ekki með einkenni sem geta samrýmst COVID-19 eða öðrum smitandi sjúkdómum og séu hvorki í sóttkví eða einangrun.
Reglur þessar taka þegar gildi.
Gæðaskjal um grímunotkun starfsmanna, gesta og sjúklinga