Frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd vegna breytingar á stigun spítalans:
Landspítali verður 1. september 2020 færður af hættustigi á óvissustig í samræmi við skilgreiningu á stigun spítalans í viðbragðsáætlun hans. Þetta er gert í ljósi stöðunnar á faraldrinum í samfélaginu, þess að enginn sjúklingur liggur inni vegna COVID-19 og að verkefni COVID-19 göngudeildar eru í jafnvægi. Þá má ætla að tveggja metra regla og grímunotkun sem hvoru tveggja var tekið upp 31. júlí muni áfram skila árangri í sóttvörnum og hindra smit milli þeirra sem starfa hjá og leita þjónustu til Landspítala.
Það sem breytist við að færast yfir á óvissustig er eftirfarandi:
1. Dagleg stjórnun færist í hefðbundið form. Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd munu funda eftir þörfum en dagleg umsýsla farsóttamála er á höndum farsóttanefndar.
2. Reglur um heimsóknir verða rýmkaðar og gefin verður út sérstök tilkynning um þá tilhögun.
3. Taka má snertiskjái til innskráningar aftur í notkun en lögð áhersla á sprittnotkun fyrir og eftir snertingu við skjáina.
Áfram er höfðað til starfsmanna að sinna persónulegum sóttvörnum vel, fylgja leiðbeiningum um smitgát, nota grímur þegar ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð, koma ekki veikt í vinnu og hafa samband við starfsmannahjukrun@landspitali.is ef óskað er eftir sýnatöku vegna einkenna sem geta samrýmst COVID-19.