Frá farsóttanefnd vegna nauðsynlegs vinnuframlags í sóttkví:
Á miðnætti aðfaranótt 19. ágúst 2020 tóku gildi nýjar reglur um för yfir landamæri. Þá skulu allir sem koma til Íslands annað hvort fara í 14 daga sóttkví eða sýnatöku á landamærum, heimasóttkví og aðra sýnatöku skv. boðun eftir u.þ.b. 5 daga - sjá hér.
Þessi breyting hefur þau áhrif á starfsfólk Landspítala að nú getur það ekki lengur fengið leyfi til að starfa í sóttkví C fyrr en niðurstöður úr seinni sýnatöku hafa reynst neikvæðar. Þá má yfirmaður sækja um sóttkví C sem stendur yfir þar til 14 dagar eru liðnir frá heimkomu.
Sé vinnuframlag starfsmanns metið svo nauðsynlegt að falli það niður á sóttkvíartímabilinu sé öryggi sjúklinga og/eða rekstraröryggi starfseiningar ógnað, þá getur yfirmaður sent rökstudda umsókn til farsóttanefndar sem í samráði við embætti sóttvarnalæknis tekur hana til umfjöllunar. Ef slík umsókn er samþykkt kemur starfsmaður til vinnu í svonefndri sóttkví B2. Nánari útfærsla á sóttkví B2 er í vinnslu og verður birt um leið og hún er frágengin og samþykkt.