Frá farsóttanefnd og viðbragðsstjórn Landspítala:
Einstaklingum sem hafa greinst með COVID-19 hefur fjölgað í samfélaginu. Þar sem ekki hefur tekist að rekja uppruna allra smita innanlands er það mat farsóttanefndar að gera megi ráð fyrir að sýking sé útbreiddari í samfélaginu en opinber gögn vitni um.
Það er hlutverk farsóttanefndar að verja starfsemi Landspítala eins og kostur er þannig að hann geti sinnt grundvallarhlutverki sínu. Því telja farsóttanefnd og viðbragðsstjórn spítalans rétt á þessum tímapunkti að grípa til eftirfarandi ráðstafana:
1. Ítreka mikilvægi þess að skima alla sem leita þjónustu Landspítala fyrir COVID 19 með því að spyrja ákveðinna spurninga - sjá gæðaskjal spítalans.
2. Ítreka mikilvægi þess að allir sem eiga bókaðan tíma í rannsóknir og meðferð á Landspítala fái send smáskilaboð í síma þar sem minnt er á tímann og fólk beðið að koma ekki ef það er með einkenni sem geta bent til COVID-19 eða ef það er í sóttkví.
3. Starfsmenn sem taka á móti sjúklingum á öllum móttökum spítalans hafi skurðstofugrímu þar til búið er að meta sjúklinginn m.t.t. COVID-19 og útiloka þann sjúkdóm, samanber lið 1 að framan.
4. Starfsmenn Landspítala sem koma til afleysinga eða snúa til vinnu eftir dvöl erlendis (óháð áhættusvæði) fari í skimun fyrir COVID-19 við heimkomu (á landamærum eða hjá starfsmannahjúkrun Landspítala), heimkomusmitgát og endurtekna skimun fyrir COVID-19 að 5-7 dögum liðnum. Að auki verði þeir í sóttkví C þar til 14 dagar eru liðnir frá komu til landsins skv. leiðbeiningum í gæðaskjali.
5. Mikilvægt er að halda tveggja metra fjarlægð á biðstofum eins og frekast er unnt og hvetja til handhreinsunar. Hvatt er til þess að sjúklingur komi án fylgdarmanns þegar því verður við komið.
6. Allir sem leita þjónustu Landspítala og hafa dvalið erlendis sl. 14 daga, óháð því hvort um skilgreint áhættusvæði er að ræða samkvæmt leiðbeiningum sóttvarnalæknis, eiga að vera meðhöndlaðir í sóttkví þar til 14 dagar eru liðnir frá komu til landsins.
7. Allir aðstandendur sem hafa ferðast erlendis (óháð skilgreindu áhættusvæði) eru beðnir um að fresta heimsókn á spítalann þar til 14 dagar eru liðnir frá komu til landsins. Við vissar aðstæður getur stjórnandi deildar veitt undanþágu frá þessari reglu. Aðstandandi þarf að vera með skurðstofugrímu og spritta hendur við komu á Landspítala. Þessi ráðstöfun er óháð niðurstöðum skimunar sýna við landamæri. Mælst er til þess að ekki komi fleiri en einn ættingi í senn nema í undantekningartilfellum.
8. Takmarkanir á aðgengi að Landspítala verði innleiddar á ný með eftirfarandi hætti:
a. aðgangstakmörkun gesta (þ.m.t. sjúklinga) inn á spítalann
b. gestir gefi sig fram við öryggisverði eða móttökustarfsmenn
c. starfsmenn noti auðkenniskort til að opna læsta innganga
d. heimsóknartími verði takmarkaður við kl. 16:00-18:00 á öllum deildum spítalans
e. einstaka deildum er heimilt að stytta heimsóknartíma enn frekar ef þörf krefur
f. deildum er heimilt og hafa umboð til að veita undanþágu frá þessari reglu þegar við á, t.d. á líknardeild
g. lagt er til að deildir með sérstakar aðstæður útbúi áætlun um heimsóknir sem falla að starfsemi sinni, t.d. bráðamóttökur