Sýnavinnsla vegna landamæraskimunar og seinni skimunar Íslendinga og hælisleitenda var formlega flutt á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í Ármúla sunnudaginn 19. júlí 2020. Sýnatakan er áfram í höndum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og niðurstöður fara stafrænt frá Landspítala til Embættis landlæknis sem svarar einstaklingum og heldur utan um öll samskipti.
Fyrsti dagurinn gekk vel og sýnafjöldi var rúmlega 1.400. Væntanlega verða fleiri sýni unnin virka daga með auknum fjölda sýna í seinni skimun. Afkastagetan í augnablikinu er um 2.000 sýni á dag. Stór hópur starfsfólks Landspítala hefur lagt nótt við nýtan dag til að láta verkefnið ganga upp. Unnið er við sýnavinnslu á tvískiptum vöktum alla daga vikunnar, frá sex að morgni til miðnættis.
Gera þurfti yfirgripsmiklar breytingar á sýkla- og veirufræðideildinni í Ármúla af þessu tilefni. Nefna má ríflega 15-földun á daglegum sýnafjölda í vinnslu á deildinni. Sömuleiðis hefur nýtt tölvukerfi verið tekið upp og aðlagað fyrir sýnavinnsluna með meiri sjálfvirkni en var. Jafnframt hefur nýtt verklag verið þróað með samkeyrslu á fimm sýnum til að ná auknum afköstum og húsnæðið verið endurbætt fyrir starfsemina.
Að jafnaði má búast við svartíma upp á 12 til 24 klukkustundir frá móttöku sýna í Ármúla og ræðst svartími meðal annars af fjölda sýna, tíma dags sem þau berast í hús og fjölda sýna í hefðbundnum rannsóknum. Vinnsluferlið, frá því að sýni úr landamæraskimun kemur á deildina, tekur að lágmarki 5 klukkustundir. Sýni sem berast eftir klukkan 19:00 fara að jafnaði í vinnslu næsta dag.
Vefsíða sýkla- og veirufræðideildar