Kæra samstarfsfólk!
Það er sjaldan lognmolla á stóru heimili.
I.
Í sumarbyrjun lauk hreint ótrúlegu viðbragði Landspítala vegna COVID-19 faraldursins. Þá fóru að sjást blikur á lofti um vaxandi álag á bráðamóttökunni í Fossvogi. Þar var eins og þið munið neyðarástand upp úr áramótum, neyðarástand vegna sjúklinga sem biðu veikir sólarhringum saman á göngum bráðamóttökunnar eftir innlögn á spítalann. Það ástand leiddi til stofnunar átakshóps okkar heilbrigðisráðherra, að hvatningu landlæknis. Vandinn hvarf á einni nóttu í byrjun mars, ekki nema að litlu leyti vegna farsóttarinnar en að miklu leyti vegna opnunar stórs hjúkrunarheimilis Hrafnistu við Sléttuveg í lok febrúar. Af niðurstöðum átakshópsins leiddi fjölmörg verkefni sem eru á höndum Landspítala og heilbrigðisráðuneytisins en einnig heimahjúkrunar. Þau munu skila árangri til lengri tíma en því miður fóru nú í júní aftur að safnast fyrir sjúklingar á bráðamóttökunni sem biðu innlagnar. Hélst það í hendur við mjög hraða fjölgun sjúklinga með færni- og heilsumat (sjúklingar sem bíða hjúkrunarheimilis) á spítalanum. Þetta er óþolandi ástand og hættulegt fyrir sjúklinga sem til okkar leita. Þótt orsakirnar séu ekki nema að litlu leyti innanhúss þá er samt ekki öðrum til að dreifa að bregðast strax við. Því opnuðum við í síðustu viku 7 rúma biðdeild á þriðju hæð Grensáss, tímabundið til að sjúklingar gætu lagst inn á spítalann. Við getum öll staðið í þakkarskuld við það frábæra starfsfólk Grensáss, lyflækninga- og endurhæfingaþjónustunnar og meðferðarsviðs alls sem einhenti sér í málin. Það er hins vegar ljóst að mjög fljótt þarf að finna fleiri rými og aðrar lausnir og erum við að vinna hugmyndir í samráði við aðrar heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisráðuneytið. Þar má engan tíma missa.
II.
Vart var þessari vá bægt frá þegar næsta verkefni bar brátt að. Upp úr hádegi á þriðjudaginn var óskaði forsætisráðherra eftir því að Landspítali tæki við greiningu sýna úr skimun á landamærum en því verkefni hefur Íslensk erfðagreining sinnt fram að þessu. Við öxlum að sjálfsögðu þá ábyrgð. Það er enda skýrt að spítalanum ber að sinna skimun fyrir sjúkdómum sem hafa þýðingu fyrir almannaheill. Sóttvarnalæknir hefur metið að það eigi við um þessa skimun. Allir eru á dekki við að tryggja að spítalinn geti tekið við verkefninu 14. júlí næstkomandi. Þar eiga sýkla- og veirufræðideild spítalans, heilbrigðis- og upplýsingatæknideild og reyndar allt þjónustusvið mikinn heiður skilinn. Starfsfólk hefur allt brugðist við af ótrúlegri snerpu og atorku með það að markmiði að tryggja að skimun gegn SARS-CoV-2 veirunni haldi áfram eftir 13. júlí. Þegar við tökum nú við þessu flókna og krefjandi verkefni þá njótum við þekkingar Íslenskrar erfðagreiningar en starfsmenn þeirrar vísindastofnunar hafa sannarlega reynst bakhjarl þegar á hefur reynt í glímu við farsóttina undanfarna mánuði.
III.
Um daginn nefndi ég mikilvægt umbótaverkefni á sviði lyfjaþjónustu þar sem aukið öryggi sjúklinga og skilvirkara vinnulag á deildum voru í brennidepli. Eitt af hliðarverkefnum okkar í þessari öru framþróun lyfjaþjónustunnar var að taka í notkun svokallaða lyfjavagna á reynsludeildum, meðal annars á lungnadeild A6. Þessar breytingar hafa skilað sér í auknum samskiptum starfsfólks og sjúklinga um lyfin sem sjúklingur fær og stytt hvern lyfjastofugang að morgni. Breytt lyfjaferli styður við verklag um bætt öryggi við lyfjagjöf, fækkun lyfjatengdra atvika og aukna þátttöku sjúklinga í meðferð ásamt því sem það minnkar tíma hjúkrunarfræðinga í lyfjaumsýslu. Lyfjavagnarnir eru algjör lykilþáttur í þessari breytingu. Í meðfylgjandi myndskeiði er fjallað um vagnana og ávinninginn af þeim. Vonandi náum við að innleiða notkun þeirra sem víðast á komandi misserum.
IV.
Svo ég haldi áfram að rekja góðan gang í spennandi verkefnum innanhúss og hrósa starfsfólki fyrir að vera á tánum í nýjungum þá hefur verið eftir því tekið að það hefur gengið hratt og vel síðustu mánuði að innleiða á Landspítala nýjan skrifstofuhugbúnað frá Microsoft, meðal annars tölvupóstkerfi, hópvinnubúnað og skýjalausnir. Innleiðingin felur í sér heilmiklar breytingar til batnaðar á daglegu vinnuumhverfi fólks og fór af stað í miðjum heimsfaraldri. Þessar nýju lausnir gegndu mikilvægu hlutverki í faraldrinum og auðvelduðu til muna fjarvinnu og fundi starfsfólks á tímum félagsforðunar og samkomubanns. Samspil þessa nýja hugbúnaðar við aðrar nýjar samskiptalausnir okkar, til dæmis Workplace, gerir okkur kleift að bjóða starfsfólki upp á nútímalegt og framsækið stafrænt vinnuumhverfi.
V.
Fátt kætir landann jafn mikið og gómsætur ís á sólríkum dögum. Sumargleði Landspítala fyrir starfsfólk stóð yfir í maí og júní. Um var að ræða gleðileik sem fór fram á samskiptamiðlinum Workplace og var knúinn áfram af góðvild einstaklinga og fyrirtækja, sem heiðruðu frammistöðu starfsfólks spítalans í „Kófinu“ með margvíslegum gjöfum. Áberandi voru upplifunarferðir, en að öllu samanlögðu voru dregnir út tæplega 400 vinningar. Lokadagar leiksins fólu síðan meðal annars í sér að Valdís-ísbíllinn fór milli helstu starfsstöðva Landspítala og gladdi mannskapinn eins og sjá má í líflegu myndskeiði. Starfsfólk Landspítala kunni vel að meta rausnarskap þessara fjölmörgu vildarvina spítalans sem létu ekki duga að styrkja starfsemina um nauðsynlegan búnað á hátindi „Kófsins“ heldur huguðu einnig að líðan starfsfólks í miklu álagi í eftirmála þess. Ég færi þeim og öllum þeim sem styrktu okkur með ráðum og dáð okkar bestu þakkir.
Góða sumarhelgi!
Páll Mattíasson