Landspítali er nú á óvissustigi vegna farsóttar Covid-19. Í því felst að farsóttanefnd starfar í umboði viðbragðsstjórnar og er tengiliður við sóttvarnalækni. Sá háttur hefur þó verið hafður á í kjölfar Covid-19 faraldursins í vor að viðbragðsstjórn og farsóttanefnd fundar reglulega, a.m.k. einu sinni í viku.
I. Helstu verkefni þessarar viku hafa verið á borði COVID göngudeildar í samvinnu við farsóttanefnd. Göngudeildin hefur eftir sem áður eftirlit með þeim sem greinast með COVID-19 en eftir að skimun hófst á landamærum tekur hún við öllum sem skila jákvæðu sýni og gengur úr skugga um hvort um virkt smit er að ræða eða hvort viðkomandi hafi mótefni gegn COVID-19 og sé ekki álitinn smitandi. Unnið er í nánu samstarfi við sóttvarnarlækni, smitrakningateymi, lögreglu, heilbrigðisumdæmin og fleiri aðila. Fram að þessu hefur aðeins greinst eitt virkt smit í landamæraskimun en áður höfðu greinst þrjú virk smit í samfélaginu. Fjórir hafa reynst hafa mótefni og eru útskrifaðir úr eftirliti.
II. Eindregið er mælst til þess að starfsfólk Landspítala sé vel á verði gagnvart COVID-19. Mikilvægt er að gæta vel að sóttvörnum, ástunda handhreinsun af kappi, vera heima ef lasleika verður vart og láta taka sýni ef minnsti grunur er um COVID-19. Þá er minnt á að starfsfólk sem kemur erlendis frá og skilar neikvæðu sýni á landamærum fer í sóttkví C, sjúklingar sem leggjast inn á spítalann og hafa skilað neikvæðu sýni fara í sóttkví nema þeir hafi einkenni; þá er beitt einangrun og sýnatöku. Gestir eru beðnir um að koma ekki í heimsókn í 14 daga eftir heimkomu frá útlöndum en hægt er að veita undanþágu og þarf þá viðkomandi að vera með öllu einkennalaus, hafa skurðstofugrímu og spritta hendur. Sjá nánar reglur á Landspítala frá 15. júní vegna sýnatöku á landamærum
III. Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn hafa þungar áhyggjur af yfirvofandi verkfalli hjúkrunarfræðinga sem að öllu óbreyttu hefst 22. júní. Það getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á þann þátt starfseminnar sem lýtur að faraldrinum auk allrar annarrar starfsemi Landspítala.