Ávarp Páls Matthíassonar forstjóra á ársfundi Landspítala í Hringsal 12. júní 2020
Kæru ársfundargestir – nær og fjær!
(glæra – stefna)
Hjartanlega velkomin öll á ársfund spítalans sem er nú haldinn með talsvert öðrum brag en áður. Fordæmalausum - jafnvel – á 20. starfsári Landspítala frá því hann varð til í núverandi mynd við sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Við ákváðum að hafa varann á og nota nútíma tækni til að streyma fundinum.
Það er auðvitað hlutverk ársfunda að líta yfir farinn veg og horfa á árið 2019 í baksýnisspeglinum. Það var ekki tíðindalaust á Landspítala fremur en nokkurt fyrri ára og gæti ég eflaust talað hér lengi dags bara við að fara yfir það helsta úr starfseminni á árinu 2019 – en ég skal reyna að stikla aðeins á mjög stóru.
Það er ánægjulegt að ársfundurinn sé haldinn hér á Hringbrautarkampusnum okkar eða í Landspítalaþorpinu eins og mætti kalla það, hér í Hringsal, þótt færri nái að vera hér í eigin persónu á fundinum.
(glæra – sjúkrahótel)
Það er nefnilega rétt um ár síðan að Sjúkrahótel Landspítala opnaði og það er mat okkar starfsfólks og stjórnenda spítalans að með því hafi lokið afar ófrjóum, erfiðum og ómarkvissum deilum um staðsetningu spítalans. Sjúkrahótelið er komið til að vera og sannaði strax á fyrstu dögum gildi sitt fyrir starfsemi spítalans og aðra heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið gleðilegt að heyra af ánægðum gestum hótelsins samhliða því að áhrifanna gæti með skýrum hætti í starfsemi spítalans enda er hótelið í fullum gangi og alltaf fullt.
(Glæra – grunnur)
Á árinu náðust síðan fjölmargir aðrir ánægjulegir áfangar í uppbyggingu Hringbrautarverkefnis. Miklar framkvæmdir hófust með jarðvegsvinnu sjálfs meðferðarkjarnans og fyrir réttu ári tilkynnti heilbrigðisráðherra að hafinn yrði undirbúningur að hönnun göngudeildarhúss. Það vorar því sannarlega í uppbyggingu Landspítala.
Þrátt fyrir afar ánægjulega uppbyggingu húsakosts okkar við Hringbraut þurfum við jafnframt að huga að allra næstu árum, árunum fram að því að nýjar byggingar komist í gagnið, því starfsemin vex hratt samhliða kröfum samfélagsins um þjónustu spítalans.
(glæra – Skaftahlíð)
Við höfum því einnig hliðrað til í húsnæði fyrir klíníska starfsemi, bæði með því að taka 3000 m2 húsbygginguna að Eiríksgötu 5 undir göngudeildir, færa skrifstofur úr Birkiborg og víðar. Voru raðirnar þéttar með því að ríflega 200 starfsmenn fluttu starfsstöðvar sínar í verkefnamiðað vinnurými í Skaftahlíð 24. Þar hefur skapast afslappað umhverfi fyrir þjónustu sem flestir starfsmenn og nemendur sækja á einhverjum tímapunkti; þar má nefna starfsmannaheilsuvernd, hermisetur og mannauðsþjónustu auk fjölmargs annars.
(glæra – skipurit
Á árinu réðumst við einnig í umfangsmiklar og tímabærar skipurits- og skipulagsbreytingar, fyrstu verulegu breytingarnar í rúmlega áratug. Meginmarkmið breytinganna var að sníða skipulag starfseminnar og stjórnunarfyrirkomulag að aðalverkefnum spítalans og síbreytilegum þörfum samfélagsins um leið og hagrætt var í stjórnunarþætti Landspítala. Í október tók ný og fámennari framkvæmdastjórn til starfa og nýir lykilstjórnendur, forstöðumenn kjarna, stuttu síðar. Það er mat mitt að nýtt skipurit styðji mjög vel við undirbúning að starfsemi spítalans í nýju húsnæði við Hringbraut og geri einnig stjórnun almennt markvissari, ekki síst þegar mikið liggur við og hraðar hendur þarf að hafa eins og reynt hefur á síðasta veturinn!
Fjölmargt fleira ánægjulegt bar til tíðinda og við náðum mikilvægum áföngum á mörgum sviðum sem of langt er að telja upp hér.
(glæra – sjúklingar á gangi)
Að sama skapi voru áskoranirnar að vanda margar. Ein sú stærsta var sá flæðisvandi sem birtist okkur og alþjóð á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi þar sem sjúklingar biðu of lengi eftir innlögn á deildir spítalans.
(glæra – graf, bið eftir innlögn)
Við unnum hörðum höndum að úrlausn þeirra mála og stendur sú vinna enn. Þótt bið eftir innlögn á bráðamóttöku heyri nú sögunni til með undraverðum hætti, þá þarf margt að koma saman til að fyrirbyggja að sæki í sama farið aftur og það er okkar ætlun að tryggja að slíkt gerist ekki. - Fjármál spítalans voru síðan sem fyrr í brennidepli og sýndist sitt hverjum um fjárþörf þjónustunnar.
Já, það er aldrei logn á Landspítala. Eitt verkefnið rekur annað. Þegar við vorum að ljúka því verkefni að leysa flæðisvandann sem birtist á bráðamóttökunni í Fossvogi, rétt að líta upp,
(glæra – gríma)
þá kom næsta áskorun sem heimsfaraldur Covid-19 færði okkur.
(glæra – covid dans)
Hafi einhver efast um kraftinn sem hér býr í gríðarlegum mannauð þá hefur viðkomandi vonandi sannfærst nú eftir viðbrögð spítalans við Covid-19 farsóttinni.
Ég hef reyndar oft rætt þetta áður – að þegar Landspítali er ekki lestaður með verkefnum sem aðrir eru betur færir til að leysa þá leysist úr læðingi sprengikraftur, ekki ósvipaður þeim sem við fundum í gær þegar síðasta sprengingin fyrir meðferðarkjarnanum var sprengd. Að glíma við flókin mál sem þarfnast sérfræðikunnáttu starfsfólks spítalans, áræðni og frumleika – þar erum við í elementinu okkar. Þetta er það sem við kunnum, þetta er sem við getum best. Landsmenn geta treyst á það.
(glæra – gg)
Það er stund milli stríða, hvað faraldurinn varðar.
Og þá er rétt að hætta að líta í baksýnisspegilinn og horfa fram á við. Framundan eru að vanda áskoranir. Við þurfum að takast á við eftirköst faraldursins og vera viðbúin nýjum sýkingum þegar landið opnar, þótt við vonum að slíkt verði í algeru lágmarki, en það hefur alltaf reynst okkur vel að vona það besta en undirbúa það versta! Áhrif Covid-faraldursins á spítalann voru gríðarleg og líka á sjúklingana sem ekki fengu Covid en þurfa þjónustu okkar við. Við þurfum að koma reglulegri starfsemi á eðlilegt ról eins og unnt er næstu vikur og mánuði og sinna þeim fjölmörgu sem biðu þolinmóðir eftir þjónustu okkar. Við þurfum að ræsa vélarnar og erum raunar búin að því - um síðustu helgi var til dæmis slegið met í fjölda þeirra sjúklinga sem fengu liðskiptaaðgerðir af biðlistum. Dag- og göngudeildirnar okkar eru aftur teknar til starfa og sjúklingarnir streyma til okkar sem aldrei fyrr. Þjónusta, kennsla og vísindi eru þeir þrír hornsteinar spítalans sem koma saman til að draga lærdóma af reynslunni. Því við þurfum að nýta þann lærdóm sem við fengum í faraldrinum inn í nýjar þjónustuleiðir og nú þegar fer raunar fram mikil rýni innan spítalans í einmitt það. Sumar nýjungar, sem líklega hefði tekið 5 ár að koma í gagnið hjá okkur við venjulegar aðstæður, fengu veglegt spark fram á við því faraldurinn sýndi okkur með áþreifanlegum hætti að það er hægt að veita þjónustu með fjölbreyttum hætti. Við erum háskólasjúkrahús og hvergi í landinu er frjórri farvegur fyrir nýjungar og frumkvöðlastarf.
(glæra – við sjúkrarúm)
Á sama tíma og við vinnum að þessum spennandi verkefnum verðum við að horfa til þeirra þátta sem við glímdum hvað stífast við síðasta árið og nálgast þá með öðrum hætti. Flæði sjúklinga og fjármál spítalans – eru okkar aðalverkefni sem fylgja okkur inn á nýtt ár og verða meginþemað í starfi stjórnenda og starfsmanna Landspítala næstu misserin. Við verðum að beisla þetta tvíeyki og sjá til þess að því verði stýrt í rétta átt.
Þetta er talsvert streitusamband – fjármálin og flæði sjúklinga. En hvorugt getur í raun án hins verið. Við náum ekki tökum á fjármálum ef við hugum ekki að flæði – ef við sjáum ekki til þess að flæðið skili því að réttur sjúklingur sé á réttum stað, á réttum tíma og sé sinnt af rétta starfsfólkinu. Það er auðvitað langhagkvæmast fyrir alla að gæta þessa. Á sama tíma þá marka fjármál okkur ramma sem við verðum að vinna innan. Við hér á Landspítala erum auðvitað sannfærð um að hér fari lítið fjármagn til spillis og því tilvalið að veita meira af því til okkar svo við, flaggskip íslenskrar heilbrigðisþjónustu, getum gert meira og þjónað fleirum, betur. En fjármagnið er eins og aðrar auðlindir sem við nýtum hér á landi, takmarkað – og mikil eftirspurn eftir fjármögnun ríkisvaldsins á alls konar mikilvægri þjónustu. Jafnframt þá er mannauður einnig takmörkuð auðlind, við erum í samkeppni á heimsvísu um hæft starfsfólk.
Vegna þess alls, vegna þessa flókna umhverfis og margþætts hlutverks spítalans, þá er mikilvægt að við höfum í öndvegi þjónustu við sjúklinginn, á sama tíma og við förum vel með og nýtum sem allra best takmarkaðar auðlindir, jafn fólk sem fjármagn.
Við þurfum að haga starfi okkar og forgangsröðun með þeim hætti að endurspegli þann vilja sem fjárveitingarvaldið sýnir með afgerandi hætti í fjárlögum hvers árs. Heilbrigðisstefnan sem samþykkt var á síðasta ári og ráðherra minntist á í ávarpi sínu skiptir reyndar gríðarmiklu máli þarna því hún skilgreinir skýrar verkaskiptingu og hlutverk okkar – og annarra þátta heilbrigðiskerfisins og leikur þannig ef rétt er á haldið lykilhlutverk við að tryggja rétta fjármögnun en líka að fólk fái þjónustu á réttu og viðeigandi þjónustustigi.
Kæra samstarfsfólk!
Í raun má segja að um tvíþætt markmið sé að ræða, að leggja ofuráherslu á bæði það að okkar sjúklingar fái rétta þjónustu á réttum stað í réttum farvegum OG að fjármagn sé nýtt með sem allra bestum hætti.
(glæra – virði)
Það er oft talað um hina gullnu jöfnu í spítalaþjónustu, að virði þjónustunnar sé það að ná sem bestri heilsu og þjónustu með sem minnstum tilkostnaði og sóun. Okkar markmið er að hámarka virði fyrir okkar skjólstæðinga. Það gerum við auðvitað með því að vinna að þessu tvíþætta markmiði, að huga að flæði sjúklinga og fjármálum. – Það verður spennandi að takast áfram á við þetta verkefni, með samstarfsaðilum innan spítalans – en ekki síður utan spítalans enda er samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir sífellt vaxandi og afar farsælt. Og það skiptir máli – því spítalinn, þótt stór sé, er aðeins hluti af því gangverki, því þjónustuneti, sem heilbrigðiskerfið allt á að vera. Þar fleygir okkur hratt fram. Samstarfið byggir á skýrri heilbrigðisstefnu og vinnu við það hvernig forgangsröðun mikilvægra verkefna skuli háttað. Það byggir á skýrri sýn um það að skapa heildræna og flæðandi þjónustu fyrir sjúklinginn og um það að auka virði þjónustunnar, með öllum tiltækum ráðum. Það er góð og hvetjandi framtíðarsýn.
(glæra – faðmlag)
Eitt af því sem gerðist í kófinu, var hnökralaus samvinna ólíkra starfstétta -og stofnana. Sílóin hurfu. Hér er falleg mynd af sjúkraliða og hjúkrunarfræðingi, Hönnu og Birgittu – að faðmast eftir strembna en árangursríka vakt í faraldrinum. Það er ekki að ástæðulausu sem við völdum yfirskrift þessa ársfundar
(glæra – saman gegnum kófið)
– saman gegnum kófið – Takk fyrir!