Tímamót voru á hjartaþræðingardeildinni við Hringbraut í morgun, 11. júní 2020. Hróðmar Helgason kvaddi þá samstarfsfólkið með því að gera sína síðustu hjartaþræðingu en hann er að verða sjötugur og að hætta á Landspítala eftir áratuga farsælt starf.
„Hróðmar hefur verið brautryðjandi í sinni grein og hefur byggt upp og leitt inngrip á börnum og fullorðnum með meðfædda hjartagalla. Það er mikil eftirsjá að slíkum manni og verður erfitt að fylla hans skarð,“ segir Karl Andersen hjartalæknir og forstöðumaður hjarta- og æðaþjónustu spítalans.
„Það hefur verið gríðarlegur fengur fyrir Ísland að hafa Hróðmar í þessu mikilvæga starfi og við vonum að hann verði áfram í tengslum við okkur,“ segir Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, yfirlæknir hjartaþræðinga, sem smellti mynd af honum og Eddu Traustadóttur deildarstjóra í morgun eftir síðustu hjartaþræðinguna.