Kæra samstarfsfólk!
Það urðu einkar ánægjuleg tímamót nú vikunni þegar langþráð afeitrunardeild fyrir ólögráða ungmenni var opnuð. Afeitrunardeildin tilheyrir fíknideild geðþjónustu spítalans og er ætlað að þjónusta ólögráða ungmenni og fjölskyldur þeirra en um fjölskyldumiðaða þjónustu er að ræða. Ungmennin koma til okkar í afeitrunarmeðferð áður en önnur úrræði og þjónusta tekur við en fjölmargir styðja við þá flóknu meðferð sem þessi viðkvæmi hópur þarf á að halda. Við erum ánægð að geta boðið þessa meðferð og þakklát samstarfsaðilum okkar og traustum bakhjörlum í heilbrigðisráðuneytinu og félags- og barnamálaráðuneyti. Til hamingju öll!
Í kjölfar áhugverðs málþings í HÍ, „Út úr kófinu“ hafa skapast umræður um fyrirhugaða opnun landamæra Íslands. Ég ræddi þessi mál m.a. í Kastljósi í gærkvöldi ásamt fleiri málum en mikilvægt er að hafa í huga að Landspítali hefur ekki sérstaka afstöðu í málinu og kom ekki að ákvörðun um hana. Hins vegar var óskað eftir áhættumati spítalans í kjölfar tillögunnar. Sumarið verður áskorun að vanda en þó er ánægjulegt að svo virðist sem samdráttur í starfseminni verði með minnsta móti og það styrkir okkur ef til þess kemur að spítalinn þurfi að sinna covid-veiku fólki.
Í þessu ljósi er niðurstaða atkvæðagreiðslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sérstakt áhyggjuefni. Fátt er eins slæmt í rekstri sjúkrahúsa eða heilbrigðisþjónustu yfirleitt og verkföll. Sér í lagi lykilstétta eins og hjúkrunarfræðingar sannarlega eru. Hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykki í starfi spítalans og án þeirra rekum við ekki sjúkrahús. Ábyrgð samningsaðila er gríðarleg. Af verkfalli má ekki verða, svo einfalt er það. Áður en það brestur á verða samningsaðilar að ná saman og ég hvet þá eindregið til að ljúka samningum í tíma.
Covid-19 faraldurinn geysar enn víða. Við hér á Íslandi búum hins vegar við þau gæði að geta horft í baksýnisspegilinn og byggt á þeirri reynslu inn í framtíðina. Sú nýsköpun og sá mikli árangur sem náðist má ekki síst þakka öflugu og vel menntuðu fólki sem kunni vel til verka, bæði hvað varðar vísinda- og gæðastarf. Margir eru einmitt núna að rýna í þau verkefni og tækifæri sem felast í úrvinnslu faraldursins. Það snýr ekki bara að lærdómum í ferlum hjá okkur heldur ekki síður að nýsköpun og vísindastarfi sem blómstrar við áskoranir. Á Landspítala er gríðarlegur kraftur fólginn í vel menntuðu starfsfólki sem vill færa heilbrigðisvísindi á Íslandi fram á veg. Það eru kraftar sem mikilvægt er að yfirvöld beri gæfu til að virkja, við þurfum að hamra járnið á meðan það er heitt. Vegna faraldursins var hinni hefðbundnu dagskrá vísindasamfélags Landspítala, Vísindum á vordögum, frestað því vísindafólkið okkar var upptekið við annað. Vísindastarf er hins vegar ein af grunnstoðum starfsins á Landspítala enda erum við eina háskólasjúkrahús landsins. Fjármagn til þessa starfs er hins vegar alltof lítið. Það er óskynsamlegt. Fátt er mikilvægara framtíð heilbrigðisþjónustu á landinu en að efla nýsköpunar- og vísindastarf á heilbrigðissviði og hvílíkt vor það yrði í vísindum ef myndarlega yrði tekið á þessum málum, nú í kjölfar kófsins.
Góða helgi!
Páll Matthíasson