Jón Haukur Baldvinsson hefur verið ráðinn deildarstjóri eldhúss og matsala Landspítala (ELMA) til næstu 5 ára.
Jón Haukur er með BA-gráðu í markaðsfræðum og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur langa reynslu í rekstri og þjónustu í tengslum við veitingaþjónustu, meðal annars hjá Icelandair, Jamie Oliver, Coca-Cola European Partners og Icelandic Glacial. Jón Haukur tók til starfa 1. júní 2020.
Hjá ELMA er rekið eitt stærsta framleiðslueldhús á Íslandi og 9 matsalir fyrir starfsfólk. Framleiddar eru daglega um 5.000 máltíðir. Starfsmenn eru rúmlega 100 af 13 þjóðernum. Starf deildarstjóra eldhúss og matsala Landspítala er uppbyggingar- og breytingastjórnunarstarf þar sem horft er til framþróunar þjónustu til sjúklinga og starfsmanna, meðal annars í tengslum við byggingu nýs meðferðarkjarna í Landspítalaþorpinu við Hringbraut. Til Landspítala leita um 120 þúsund Íslendingar árlega og þar vinna 6.000 starfsmenn og 2.000 nemendur í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta.